Ein helsta ástríða Ted í lífinu var söngur og á yngri árum ferðaðist hann um Bretlandseyjar og kom fram á skemmtistöðum og söng. En með aldrinum og eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist varð þetta erfiðara fyrir hann. Hann neyddist því til að hætta að koma fram og syngja en þrátt fyrir það má segja að takturinn hafi enn verið í blóði hans og hjarta.
„Pabbi var söngvari allt sitt líf, hann ferðaðist um og söng um allt land. Hann vann í verksmiðju og eftir að hann giftist hélt hann áfram að koma fram.“
Segir Mac um föður sinn.
Listamannanafn Ted er „The Songaminute Man“ en það segir Mac tilkomið vegna þess hversu mörg lög hann kann.
„Á síðustu árum hefur hann glatað mörgum minningum sínum – oft þekkir hann okkur í fjölskyldunni ekki og hann verður árásargjarn.“
Árásargirnin og reiðisköstin eru öllum erfið og stundum er erfitt að veita Ted viðeigandi aðstoð, tilfinningalega og læknisfræðilega, vegna þessa kasta hans. En Mac hefur alla tíð verið staðráðinn í að hjálpa föður sínum að halda stærstu ástríðu hans á lífi, söngnum. Það gekk ekki vel framan af en síðan fékk Mac góða hugmynd. Þegar hann sér að faðir hans er að hverfa inn í gleymskuna eða reiðiskast kveikir hann á uppáhaldstónlist hans. Oft man Ted þá textana og byrjar að syngja með og líður betur. Það eru þessar litlu og kærleiksríku stundir sem hvetja Mac áfram til að hjálpa föður sínum að varðveita minningarnar.
Feðgarnir eru einnig farnir að taka lög upp til að gleðja aðra og vonast fjölskylda Ted til að þetta geti hjálpað öðrum Alzheimerssjúklingum í glímunni við sjúkdóminn.