Það var 16 ára nemandi í Greece Odyssey Academy í Greece í New York ríki sem lét þessi orð falla. Nærstaddir tóku eftir þessum orðum hans og tilkynntu þetta strax til stjórnenda skólans. Þeir höfðu samband við lögregluna sem tók þetta alvarlega og yfirheyrði fjöldi manns til að kanna hvort raunveruleg hætta væri á ferðum.
Hættan reyndist stafa frá þessum 16 ára nemanda en hann hafði ásamt þremur félögum sínum viðað að sér 23 skotvopnum og þeir höfðu útbúið þrjár sprengjur. Þetta ætluðu þeir að nota til að ráðast á afskekkt samfélag múslima, sem nefnist Islamberg, sem er um 240 km norðan við New York borg.
Vincent Vetromile 19 ára, Brian Colaneri 20 ára og Andrew Crysel 18 ára voru handteknir á heimilum sínum í Rochester grunaðir um ólöglega vopnaeign og samsæri eftir því sem segir í dómsskjölum. Fjórði pilturinn, sá sem lét ummælin falla í mötuneytinu, var einnig handtekinn en þar sem hann er ekki orðinn lögráða nýtur hann nafnleyndar.
Saksóknarar hafa ekki kært piltana fyrir áætlun um að fremja hryðjuverk en Sandra Doorley, saksóknari, segir að unnið sé að rannsókn málsins og ekki sé útilokað að fleiri kæruatriði bætist við.
Ekki er enn ljóst hvernig fjórmenningarnir tengjast eða hvar þeir hittust en vitað er að þrír þeirra voru skátar að sögn lögreglunnar í Greece. Greece er úthverfi Rochester og er við Lake Ontario og kanadísku landamærin. Lögreglustjórinn segir að piltarnir hafi undirbúið sig mánuðum saman. Þeir áttu samskipti í gegnum Discord spjallvefinn en hann er vinsæll meðal hægriöfgamanna.
Islamberg er lítill bær miðja vegu á milli Rochester og New York borgar. Þangað er aðeins hægt að komast eftir sveitavegum. Bærinn var stofnaður 1980 af aðdáendum Mubarak Ali Shah Gilani, sem aðhylltist pakistanska dultrú. Fyrstu íbúarnir voru aðallega svartir múslimar sem vildu flytja frá New York og finna betri stað til að iðka trú sína. Í bænum eru höfuðstöðvar samtakanna Muslims of America. Á undanförnum árum hafa hópar, andsnúnir múslimum, margoft ráðist á bæinn. Hægrisinnaðir samsæriskennignasmiðir halda því fram að bærinn, sem á ekkert annað en friðsama sögu að baki, sé þjálfunarbúðir fyrir hryðjuverkamenn.