fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Sænska þjóðin stóð á öndinni í gær – 119 skelfilegar mínútur

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 23. janúar 2019 06:55

Skjáskot af vef Aftonbladet.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í 119 mínútur stóð sænska þjóðin á öndinni í gær og fylgdist náið með atburðarrásinni í Gautaborg en þaðan höfðu borist skelfilegar fréttir. Atburðarásin var hröð en þó var eins og tíminn stæði í stað að margra mati því svo mikil var spennan og skelfing og ótti fólks óx með hverri mínútunni.

Allt hófst þetta klukkan 14.18 þegar örvæntingarfull kona hringdi í lögregluna í Gautaborg og sagði að búið væri að stela barnavagni með sex mánaða dóttur hennar í. Barnavagninn hafði staðið utan við leikskóla í Hisings en móðirin hafði farið þar inn til að sækja eldra systkin. Þegar hún kom út með hitt barnið eftir fimm til tíu mínútur var barnavagninn, af gerðinni Bugaboo, á bak og burt og stúlkan með.

Móðirin leitaði sjálf í nágrenni leikskólans í um hálfa klukkustund áður en hún hringdi í lögregluna. Klukkan 14.26 voru fyrstu lögreglumennirnir komnir á vettvang. Mikil vinna hófst strax hjá lögreglunni vegna málsins. Auk þess að hefja leit að stúlkunni var kannað hvort fjölskyldunni eða leikskólanum hefðu borist hótanir eða hvort einhverjar deilur væru innan fjölskyldunnar. Svo var ekki.

Lögreglan hringdi í föður stúlkunnar sem flýtti sér á staðinn. Fjöldi lögreglumanna var kominn á vettvang og leitað var í nágrenninu. Lögreglan hafði samband við stjórnstöð almenningssamgangna í borginni og leigubílafyrirtæki og lýsti eftir barnavagninum og stúlkunni.

„Stór atburður“

Klukkan 14.50 ákvað stjórnandi leitarinnar að skilgreina málið sem „stóran atburð“ en í því fellst að öllum tiltækum mannskap er stefnt í verkefnið og voru lögreglumenn frá öðrum lögregluumdæmum í Västra Götaland kallaðir til aðstoðar í Gautaborg. Þyrlur voru einnig notaðar við leitina.

Lögreglumenn, sem voru við leit, fengum margar ábendingar frá almenningi, þar á meðal frá móður sem hafði séð svolítið sem reyndist skipta miklu máli. Þegar hún var að sækja barn sitt í leikskólann mætti hún konu með barnavagn sem líktist hennar eigin barnavagni. Þetta var vagn af gerðinni Bugaboo. Konan sagðist hafa snúið sér við þegar hin konan gekk út um hliðið við leikskólann með barnavagninn því hún var með samskonar barnavagn. Hún sagði að konan hafi virst stressuð og hún hafði aldrei fyrr séð hana við leikskólann og fannst þetta því undarlegt. En hún skildi eigin barnavagn, með fimm ára syni sínum í, eftir utan við leikskólann og fór inn að sækja barn sitt.

Bugaboo barnavagn.

Klukkan 15.00 birti lögreglan upplýsingar um málið á heimasíðu og hvatti alla sem hefðu einhverjar upplýsingar um málið til að hringja strax í lögregluna. Einnig var gefin lýsing á klæðnaði litlu stúlkunnar en hún var í bleikum kuldagalla með gráa húfu. Undir kuldagallanum var hún í bláum náttfötum.

Klukkan 15.02 birti Aftonbladet fyrstu fréttina um málið og sendi fréttatilkynningu til lesenda sinna í gegnum síma og á netinu.

Tugir lögreglumanna voru þá við leit, lögregluþyrlur leituðu úr lofti og lögregluhundar á jörðu niðri. Lögreglan var byrjuð að undirbúa að kalla út leitarmenn á hestum en þeir hafa betri yfirsýn en þeir sem eru gangandi.

Mynd:Wikimedia Commons

Ábendingar streymdu inn til lögreglunnar, sumum var hægt að henda umsvifalaust en aðrar voru áhugaverðari. Fjölskylda, sem býr nærri leikskólanum, tók eftir konu með barnavagn við hús þeirra um klukkan 14.15 og virtist hún vera að fela sig í garðinum þeirra. Þessar upplýsingar bárust lögreglunni þó ekki fyrr en á fjórða tímanum eftir að fjölskyldufaðirinn hafði heyrt fréttir af horfnu stúlkunni. Konan var þá auðvitað á bak og burt.

Rannsakað sem mannrán

Klukkan 15.12 tilkynnir lögreglan að málið sé rannsakað sem mannrán. Fjöldi rannsóknarlögreglumanna er sendur á vettvang til viðbótar við þá tugi lögreglumanna sem voru við leit.

En þetta vissi Jessica Samuelsson, verslunarstjóri á veitingahúsi Coop Forums Kök och Café í Bäckebol verslunarmiðstöðinni, sem er í um sex kílómetra fjarlægð frá leikskólanum, ekkert um. Hún var á fullu að vinna í eldhúsinu ásamt samstarfsfólki sínu. Þau höfðu ekki hlustað á fréttir og vissu ekkert um málið. Um klukkan 16 lauk vinnudegi kokksins og fór hann þá út að bílnum sínum sem var lagt á starfsmannabílastæðinu. Þegar hann opnaði farangursrýmið sá hann barnavagn með litlu barni í á milli fjögurra bíla.

„Hann hringdi í mig og sagði „það er barn hérna“ og vildi að ég kæmi út.“

Sagði Jessica í samtali við Aftonbladet.

„Var alveg róleg“

Án þess að hafa nokkra vitneskju um leitina að stúlkunni eða að lögregluþyrlur sveimuðu yfir borginni tóku Jessica og kokkurinn litlu stúlkuna með inn á veitingstaðinn og settust við borð. Jessica tók hana úr vagninum til að kanna hvort henni væri kalt en það var henni ekki.

„Hún var alveg róleg. Ég hélt að hún svæfi en þegar ég talaði við hana vaknaði hún og byrjaði að hlæja. Hún var hlý og kát og glöð. Hún var svo sjarmerandi.“

Sagði Jessica í samtali við Aftonbladet.

Jessica og kokkurinn hringdu í vaktmenn verslunarmiðstöðvarinnar og fengu þá upplýsingar um að Gautaborg væri nánast á hvolfi vegna leitar að lítilli stúlku sem var í Bugaboo barnavagni. Stúlkan var í bleikum kuldagalla og með gráa húfu. Nákvæmlega eins og stúlkan sem sat hlæjandi í fangi Jessicu.

Klukkan 16.14 tilkynna lögreglumenn við Coop Forum í Bäckebol að þar hafi fundist barnavagn og stúlka sem passi við lýsinguna á horfna barninu, öryggisvörður hafi verið að tilkynna þeim það. Klukkan 16.17 tilkynna lögreglumennirnir að hér sé um rétta barnavagninn og barnið að ræða.

Klukkan 16.47 er 39 ára kona handtekin á bílastæðinu við verslunarmiðstöðina en hún er grunuð um að hafa rænt litlu stúlkunni.

Skömmu síðar fá foreldrar litlu stúlkunnar hana í fangið eftir læknisskoðun í sjúkrabíl sem var sendur að verslunarmiðstöðinni.

Eftir 119 dramatískar og skelfilegar mínútur var leitin á enda og skömmu síðar var búið að handtaka konuna sem er grunuð um að hafa rænt litlu stúlkunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 5 dögum

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans