Fyrirtækið Sarot Group, sem stóð fyrir verkefninu, var úrskurðað gjaldþrota í nóvember en þá var búið að byggja tæplega 600 hallir og búið að selja um helming þeirra fyrir sem svarar til 40 til 60 milljóna íslenskra króna fyrir hverja höll.
En síðan fóru kaupendurnir að bakka út úr viðskiptunum og sjóðir Sarot Group tæmdust og skuldaði félagið sem svarar til tæplega 4 milljarða íslenskra króna þegar það var úrskurðað gjaldþrota.
Nú stendur Burj al Babas tómur. Byggingaverkamennirnir eru farnir heim og allir ríku útlendingarnir, sem áttu að búa í höllunum, eru hvergi sjáanlegir. En forsvarsmenn verkefnisins hafa ekki gefið upp alla von. Í nóvember hafði Bloomberg eftir Mehmet Emin Yerdelen, stjórnarformanni Sarot Group, að aðeins þyrfti að selja 100 hallir til viðbótar og þá væri málið leyst.
Margir efnaðir Arabar voru meðal kaupendanna en drógu sig síðan út úr kaupunum vegna lækkandi olíuverðs en einnig vegna samdráttar í tyrknesku efnahagslífi og pólitísks óstöðugleika í landinu.