BBC segir að Wu hafi náð að setja sig í samband við björgunarmenn eftir að hún hafði hrapað 20-30 metra niður í gil. En vegna veðurs komust björgunarmenn ekki til hennar fyrr en hún var látin. Talið er að kuldi hafi orðið henni að bana en hún lá í gilinu í 28 klukkustundir. Yfirvöld segja að hitastig hafi verið um frostmark.
Hún hafði sent vinum sínum skilaboð um að hún gæti ekki hreyft neðri hluta líkamans eftir hrapið. Hún gat sent björgunarmönnum nákvæma staðsetningu sína en sem fyrr segir kom veður í veg fyrir að þeir kæmust á vettvang.
WU var iðin við að skýra frá fjallgöngum sínum á samfélagsmiðlum og sýna myndir af sér bikiníklæddri á toppi fjalla. Hún naut mikillar hylli á Taívan.
Þrátt fyrir að flestir hafi þekkt hana sem bikinífjallgöngukonuna þá var hún engin aukvisi í fjallgöngum því hún var þaulreynd og þekkt fyrir að nota alltaf rétta búnaðinn og gæta fyllsta öryggis.