George W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, brá sér í nýtt hlutverk á föstudaginn þegar hann tók að sér að sendast með pizzur. Þá birtist hann skyndilega með pizzustafla og færði leyniþjónustumönnunum sem gæta öryggis hans og eiginkonu hans, Laura W. Bush öllum stundum.
„Laura og ég erum starfsmönnum leyniþjónustunnar þakklát sem og þeim þúsundum starfsmanna alríkisins sem leggja hart að sér án þess að fá laun. Við þökkum einnig samlöndum okkar sem styðja þau.“
Skrifaði Bush á Instagram. Pizzaútdeiling hans til lífvarðanna hefur væntanlega verið hugsuð sem hvatning til Donald Trump, forseta, og demókrata í fulltrúadeildinni um að setjast niður og leysa deilurnar um fjármögnun starfsemi alríkisins og byggingu múrs á landamærunum við Mexíkó. Trump hefur sett það sem skilyrði, fyrir að hann samþykki fjárlög, að þingið veiti 5,7 milljörðum dollara til að reisa múr á landamærunum. Þetta þvertaka demókratar fyrir.
Starfssemi margra alríkisstofnana hefur því legið niðri frá 22. desember síðastliðnum og er þetta orðin lengsta stöðvun starfsemi alríkisins í sögunni. Um 800.000 opinberir starfsmenn, þar á meðal starfsmenn leyniþjónustunnar, fá ekki greidd laun á meðan forsetinn hefur ekki undirritað fjárlög.
„Það er kominn tími til að leiðtogar beggja fylkinga ýti pólitíkinni til hliðar, hittist og ljúki þessari lokun alríkisstofnana.“
Sagði Bush.