Málið er enn ráðgáta, 21 ári síðar, og ekki er vitað af hverju Versace var myrtur. Margar kenningar hafa verið á lofti í gegnum tíðina og eru enn. Tengdist hann kaldrifjuðum morðingjanum? Var morðið skipulagt eða réði tilviljun því að það var Versace sem var skotinn til bana? Af hverju var hann myrtur?
Þetta eru meðal þeirra spurninga sem hafa leitað á marga í gegnum tíðina.
Reynt hefur verið að svara þeim í þáttaröðinni American Crime History, sem er hægt að sjá Netflix, en þar hefur verið kafað djúpt ofan í smáatriði í tengslum við morðið og líf morðingjans.
Það var Andrew Cunanan, 27 ára, sem skaut Versace til bana. Cunanan var á þessum tíma eftirlýstur fyrir fjögur önnur morð. Hann framdi sjálfsvíg níu dögum síðar. Í American Crime History er því haldið fram að hann og Versace hafi hist margoft á tíunda áratugnum en þeir eru báðir sagðir hafa tengst samfélögum samkynhneigðra í Miami og San Francisco.
Fjölskylda Versace hefur alla tíð þvertekið fyrir að Versace og Cunanan hafi nokkru sinni hist og ef marka má umfjöllun Time er það rétt. Fjölskyldan segir að Versace hafi einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma. Í gegnum árin hefur lítið komið fram sem varpar frekara ljósi á morðið og kannski hafði lögreglustjórinn í Miami rétt fyrir sér þegar hann sagði skömmu eftir morðið að hann væri ekki viss um að málið yrði nokkur tímann upplýst að fullu.
Vitað er að Cunanan var kaldrifjaður raðmorðingi sem glímdi við persónuleikatruflanir. Hann er sagður hafa verið afburðagreindur og hraðlyginn. Hann er sagður hafa verið mjög sannfærandi í framkomu og heltekinn af því að verða auðugur að sögn The New York Times. Hann gerði sér að leik að nýta sér auðuga eldri menn en var sjálfur atvinnulaus.
Fjögur af fimm fórnarlömbum hans voru samkynhneigð eins og Cunanan sjálfur. Fimmta fórnarlambið myrti hann af því að hann þurfti að komast yfir rauða pallbílinn hans á leið til Miami. Mennirnir voru allir myrtir á fjögurra mánaða tímabili. Versace var síðasta fórnarlambið.
Cunanan vildi lifa í lúxus og láta aðra sjá sér fyrir peningum. Hann vænti þess að vera samþykktur í samfélögum efnaðs fólks og missti stjórn á sér ef það gekk ekki eftir.
Það er erfitt að átta sig á hvað varð þess valdandi að Cunanan byrjaði að myrða fólk. Því hefur verið velt upp hvort sú staðreynd að einn af helstu „sykurpöbbum“ hans lét hann róa hafi verið vendipunkturinn og hrundið morðæðinu af stað. Honum hafi fundist hann hafa verið svikinn og gæti ekki lengur fengið það sem hann vildi.
Cunanan hafði átt í ástar- og/eða kynferðislegumsamböndum við flest fórnarlamba sinna en eins og fyrr sagði er ágreiningur uppi um hvort hann hafi þekkt Versace. Þó er vitað að Cunanan var nánast heltekinn af Versace. Hann er margoft sagður hafa skáldað sögur um að þeir tveir þekktust eða væru vinir eða ættu í ástarsambandi.
Eitt það fyrsta sem lögreglan hugleiddi í tengslum við morðið var hvort mafían hefði staðið á bak við það. Því hafði verið velt upp hvort Versace hefði haft tengsl við mafíuna og hafi leigumorðingi verið fenginn til að myrða hann.
„Við hugleiddum hvort skipulögð glæpasamtök, mafían, hafi verið að verki því við fundum dauðan fugl við hlið hans.“
Sagði Carlos Noriega, sem var rannsóknarlögreglumaður í Miami á þessum tíma, í samtali við CBS News. Hann sagði að fuglinn hefði getað verið tákn um að mafían hefði fyrirskipað morðið en önnur kenning var að fuglinn hefði einfaldlega orðið fyrir brotum úr kúlunni sem varð Versace að bana. Systkini Versace, Donatella og Santo, hafa mótmælt því að hann hafi tengst mafíunni.
Þáverandi unnusti Versace, Antonio D‘Amico, hefur einnig vísað mafíutengingunni á bug.
„Ég þekkti Gianni í 24 ár og var með honum í 15 ár. Að hann hafi verið í tengslum við mafíuna er það heimskulegasta sem ég hef heyrt. Hann fór aldrei í banka og vissi einu sinni hvernig átti að skrifa ávísun. Hvernig hefði hann þá að stunda peningaþvætti fyrir mafíuna.“
Það var einmitt D‘Amico sem kom að Versace helsærðum þennan örlagaríka dag.
Andrew Cunanan fannst látinn í húsbát í Miami þann 23. júlí 1997. Lögreglan hafði því aldrei hendur í hári hans og gat því aldrei yfirheyrt hann um ástæður morðsins. Cunanan skaut sig í höfuðið.