Oft er vísað til bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hvað varðar hættuna á að loftsteinar skelli á jörðinni með hörmulegum afleiðingum enda enginn sem fylgist betur með geimnum en NASA. Það eru yfirleitt einhverjar samsæriskenningar á flugi um yfirvofandi heimsendi og leynimakk NASA, stjórnvalda og fleiri um eitt og annað.
En myndi NASA halda því leyndu ef stór loftsteinn er með stefnu á jörðina með tilheyrandi hörmungum þegar hann lendir í árekstri við þessi heimkynni okkar? Nei segir Michelle Thaller, fjölmiðlafulltrúi NASA, eftir því sem Sunday Express segir. Í viðtali segir hún að ef þessi staða kemur upp verði vísindamenn NASA alveg jafn áhyggjufullir og aðrir.
„Ef ég vissi að heimsendir sé yfirvofandi, heldur þú þá að ég myndi sitja við skrifborðið mitt?“
Spyr hún og bætir við:
„Ef þú sérð alla starfsmenn NASA kaupa gott vín og eyða öllum peningunum sínum, það er dagurinn til að hafa áhyggjur.“
Segir hún og bætir við að ekki væri hægt að halda því leyndu ef heimsendir væri yfirvofandi.
„Næsti“ heimsendir að mati samsæriskenningasmiða er í febrúar en þá mun loftsteinninn 2002 NT7 þjóta framhjá jörðinni. Samsæriskenningasmiðir telja að hann verði þá í aðeins 10.000 km fjarlægð en NASA segir að fjarlægðin verði öllu meiri eða 61 milljón kílómetra.