Þegar kona að nafni Kathy var að versla í íþróttavöruverslun í Salem í Oregon í Bandaríkjunum átti hún ekki von á að verslunarferðin yrði öðruvísi en aðrar. Skyndilega sá hún konu sem virtist vera að versla með manni sínum og barni. Eitthvað dró athygli Kathy að konunni og barninu og fljótlega áttaði hún sig á að þau virtust vera óttaslegin, augu þeirra voru á sífelldri hreyfingu þar sem þau voru stöðugt að skanna umhverfið, eiginlega var eins og þau væru að leita að einhverju.
Um síðir náði Kathy augnsambandi við konuna sem hvíslaði þá tvö orð sem fylltu Kathy skelfingu:
„Hjálpaðu mér.“
Konan hélt síðan áfram að láta líta út fyrir að hún væri að versla. Kathy áttaði sig á að konan væri í hættu og hringdi því strax í lögregluna sem kom fljótt á vettvang. Þá kom í ljós að ekki var allt með felldu.
Í ljós kom að maðurinn, hinn 25 ára Christopher Hahn-Collins, hafði brotist inn til konunnar daginn áður og rænt henni og syni hennar. Þrátt fyrir þá miklu skelfingu sem heltók konuna áttaði hún sig á að hún væri tilneydd til að gera allt sem í hennar valdi stæði til að lifa þetta af. Hún náði að vinna sér inn traust Hahn-Collins og á endanum náði hún að sannfæra hann um að fara með hana og drenginn í íþróttavöruverslunina.
Þessi áætlun hennar gekk fullkomlega upp og má þakka hugrekki hennar og útsjónarsemi og auðvitað árvekni Kathy að mæðginin losnuðu úr haldi Hahn-Collins.
Hahn-Collins var dæmdur í fangelsi fyrir innbrot og mannrán.
Chris Baldrige, lögreglumaður, sagði í samtali við KOIN 6 að Kathy hafi brugðist hárrétt við.
„Við viljum ekki að fólk fari frá svona aðstæðum og hugsi: „Þessi manneskja þarfnaðist kannski hjálpar, hefði ég átt að hringja?““