„Ég var í morgungöngutúr með hundinn þegar bíl var ekið framhjá innganginum að stigaganginum. Það er ekki óalgengt í sjálfu sér en menn stoppa venjulega við enda blokkarinnar þar sem vegurinn endar. En í þessu tilfelli var bílnum ekið áfram yfir grasflötina og upp á malarstíginn sem liggur upp að húsi Hagen-hjónanna.“
Þetta sagði nágranni Hagen-hjónanna í samtali við VG. Hann sagði að bílnum hefði ekki verið ekið greitt en heldur ekki eins rólega og hefði verið eðlilegt miðað við hvar honum var ekið. Nágranninn telur að bíllinn hafi verið silfurgrár, líklegast jeppi, með norsk skráningarnúmer. Hann sá ekki bílstjórann eða hversu margir voru í bílnum. Þetta gerðist á milli klukkan 8.30 og 10.30 þann 31. október að sögn nágrannans. Lögreglan telur að Anne hafi verið rænt á milli klukkan 09.15 og 13.30.
Aðrir íbúar í hverfinu segja að aksturslag bílsins hafi verið mjög óvenjulegt og að enginn í hverfinu eigi bíl sem passar við þessa lýsingu.