Margir höfðu vonast til að samningurinn yrði samþykktur þannig að staða málsins lægi ljós fyrir en svo fór ekki og því er ekki annað að sjá en allir möguleikar séu aftur opnir upp á gátt. Vantraust hefur verið lagt fram á ríkisstjórn May. Ný þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit eða frestun á útgöngu Breta á meðan reynt verður að ná samningum við ESB. Einnig er ekki útilokað að boðað verði til þingkosninga í Bretlandi. Allt þetta, þessi mikla óvissa, fer illa í atvinnulífið sem veit ekki hvers er að vænta. Þá er staða ríkisborgara annarra ESB-ríkja í Bretlandi í lausu lofti því enginn veit hvaða reglur munu gilda um þá eftir útgönguna ef samningar nást ekki og Bretar yfirgefa ESB án samnings, svokölluð hörð útganga. Það sem Theresa May sagði að atkvæðagreiðslunni lokinni á kannski ágætlega við um stöðuna:
„Það er ljóst að þingið styður þennan samning ekki. En atkvæðagreiðsla kvöldsins segir okkur ekkert um hvað þingmennirnir styðja. Ekkert um hvernig – eða hvort þeir hafa í hyggju að virða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem þingið studdi.“
Sagði hún og bætti við:
„Almenningur, sérstaklega ríkisborgarar ESB, sem búa hér, og breskir ríkisborgarar sem búa í ESB eiga skilið að fá skýr svör við þessu sem allra fyrst. Þeir sem vinna störf sem eru háð viðskiptum við ESB eiga heimtingu á skýrum svörum.“
Evrópskir stjórnmálamenn og evrópskt atvinnulíf undirbúa sig nú undir verstu hugsanlegu niðurstöður við útgönguna, Brexit án samnings. Margir telja að útgangan muni þá valda algjöru öngþveiti, þá sérstaklega í Bretlandi.
Breska hugveitan Institute of Directors sagði niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar vera falleinkunn fyrir breska stjórnmálamenn.
„Með aðeins nokkrar vikur til stefnu horfum við inn í byssuhlaup en þingmenn hegða sér eins og þeir hafi nægan tíma til stefnu.“
Segir í yfirlýsingu frá hugveitunni.