Sky-fréttastofan segir að samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar séu margar milljónaborgir í hættu vegna hækkandi yfirborðs sjávar þar sem bráðnunin sé hröð og muni væntanlega hafa í för með sér mikla hækkun sjávarmáls.
Haft er eftir Eric Rignot, hjá Kaliforníuháskóla, sem stýrði rannsókninni að samhliða mikilli bráðnun á Suðurskautinu reikni vísindamenn með margra metra hækkun á yfirborði sjávar á næstu öldum.
Vísindamennirnir notuðu gervihnattagögn og hágæða ljósmyndir af Suðurskautinu við rannsóknina. Niðurstaða þeirra er að frá 1979 til 1990 bráðnuðu 36 billjónir tonna af ís árlega umfram þann ís sem myndast. Frá 2009 til 2017 jókst bráðnunin sexfalt og var orðin 228 billjónir tonna á ári. Þessi bráðnun olli því að yfirborð heimshafanna hækkaði um rúmlega 1,4 sm frá 1979 til 2017.
Vísindamennirnir komust að því að svæði á austurhluta Suðurskautsins, sem talið var að væru „stöðug og ónæm fyrir breytingum“ eru farin að bráðna samhliða mikilli hlýnun sjávar.