fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Pressan

Þýska kona ákærð fyrir að láta 5 ára stúlku deyja úr þorsta

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 15. janúar 2019 19:30

Liðskonur Íslamska ríkisins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er til meðferðar hjá þýskum dómstóli mál á hendur Jennifer W. eins og þýskir fjölmiðlar nefna hina 27 ára konu sem er ákærð í málinu. Hún er ákærð fyrir að hafa látið 5 ára stúlku deyja úr þorsta þegar hún dvaldi í Írak en hún var liðsmaður hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamska ríkið (IS). Þetta er í fyrsta sinn sem þýskur dómstóll tekur fyrir mál konu sem er sökuð um að hafa verið liðsmaður IS. Hún er ákærð fyrir stríðsglæpi og morð.

Í Þýskalandi liggur allt að 10 ára fangelsi við að vera meðlimur í hryðjuverkasamtökum en ákæruvaldið þarf að sanna á áþreifanlegan hátt að ákærðir hafi verið meðlimir hryðjuverkasamtaka. Hvað varðar karla er það yfirleitt ekki erfitt því nöfn þeirra er oft að finna í skrám og bóhaldi IS og einnig eru þeir oft í áróðursmyndböndum og ljósmyndum IS á netinu.

Konurnar eiga hins vegar að halda sig heima við, sjá um heimilið, vera til reiðu þegar karlarnir vilja stunda kynlíf og ala börn. Af þessum sökum hefur það verið almennt viðhorf að þær hafi gegnt minna hlutverki hvað varðar ofbeldisverk IS. En Jennifer W. hefur heldur betur brotið þær hugmyndir í þúsund mola. Þýskir fjölmiðlar segja að saksóknarar hafi nægileg sönnunargögn til að sanna það fyrir dómi.

Ákæran er á hendur Jennifer W. er ekki fögur lesning. Þar kemur fram að litla stúlkan hafi verið í hópi stríðsfanga sem IS tók. Talið er að hún hafi tilheyrt minnhlutahópi jasíta sem IS taldi vera vantrúaða. 2014 rændi IS eða drap um 10.000 jasíta. Margar konur og ungar stúlkur voru seldar til kynlífsþrælkunar. Jennifer W. og maður hennar keyptu stúlkuna sumarið 2015 og notuðu hana sem þræl á heimilinu að sögn Frankfurter Allgemeine Zeitung. Síðan veiktist stúlkan og pissaði á dýnu. Maðurinn refsaði henni fyrir þetta með því að binda hana fasta utanhúss. Þar lést hún af völdum þorsta í hinni brennandi heitu sól. Jennifer W. er ákærð fyrir að hafa orðið henni að bana með því að aðhafast ekkert, til dæmis færa henni vatn.

Bild segir að konan hafi haldið til Írak í september 2014 þar sem hún gekk til liðs við IS sem hafði skömmu áður lýst yfir stofnun kalífadæmis í hlutum Íraks og Sýrlands. Konunni var falið að sinna gæslu í almenningsgörðum í Fallujah og Mosul þar sem hún gætti þess að fólk klæddi sig og hegðaði sér eins og hryðjuverkamennirnir kröfðust. Til að fá fólk til að hlýða bar hún skammbyssu, vélbyssu og sprengjuvesti. Fyrir þetta greiddi IS henni 70 til 100 dollara á mánuði.

Í janúar 2016 hélt hún til Tyrklands til að sækja um nýtt vegabréf í þýska sendiráðinu. Þegar hún yfirgaf það var hún handtekin af tyrkneskum leyniþjónustumönnum og send til Þýskalands. Þegar þangað var komið fylgdust þýsk yfirvöld náið með henni því talið var víst að hún myndi reyna að fara aftur til Írak. Hún var mjög virk meðal íslamskra öfgamanna í Þýskalandi eftir heimkomuna og stofnaði meðal annars spjallsvæði á netinu sem var helgað stuðningi við handtekna íslamista og fjölskyldur þeirra.

Þann 29. júní ók hún frá heimili sínu í Lohne í norðvesturhluta Þýskalands og í suður. Hún komst aðeins til Bæjaralands en þar var hún handtekin þar sem talið var að hún ætlaði aftur til IS en nú í Sýrlandi. Hún hefur verið í varðhaldi síðan. Nú nýtur hún sjálf stuðnings öfgasinnaðra íslamskra kvenna. Bild segir að ein þeirra hafi sagst hafa orðið fyrir áfalli því „sterkur liðsmaður“ og trúfélagi hafi verið handtekinn. Á spjallrásum íslamista er fólk hvatt til að sýna Jennifer W. stuðning og biðja fyrir lausn hennar. Ef hún verður fundin sek um ákæruatriðin á hún lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Málið sem Pútín hélt að hann gæti þagað í hel

Málið sem Pútín hélt að hann gæti þagað í hel
Pressan
Fyrir 2 dögum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sýndu klám á risaskjá í kirkjunni þegar grunnskólabörn voru í heimsókn

Sýndu klám á risaskjá í kirkjunni þegar grunnskólabörn voru í heimsókn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Varpa ljósi á nýju Harry Potter þáttaröðina – „Það gengur mjög vel!“

Varpa ljósi á nýju Harry Potter þáttaröðina – „Það gengur mjög vel!“