Svona hljóðaði spurninginn sem 450.000 manns um allan heim voru spurðir í stórri könnun Gallup. Samkvæmt niðurstöðum hennar dreymdi 750 milljónir manna um það á árunum 2015-2017 að flytja til annars lands ef þeir hefðu tækifæri til. Þetta svarar til þess að 15 prósent jarðarbúa hafi hug á að flytjast á milli landa og hefur hlutfallið aukist um eitt prósentustig frá síðustu könnun sem var gerð á árunum 2013-2016. Draumar og áhugi fólks á að flytja til annars lands hefur sérstaklega aukist í Latnesku Ameríku, Afríku, Miðausturlöndum og Norður-Ameríku á undanförnum árum.
Gott dæmi um þetta er bærinn Intipucá í El Salvador en þaðan hefur tæplega helmingur íbúanna flutt til Washington D.C. í Bandaríkjunum. Í El Salvador búa um 6,4 milljónir manna og dreymir rúmlega helming þeirra um að flytja úr landi samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup.
Það hefur ekki dregið úr draumum fólks að bæði Evrópa og Bandaríkin, sem eru vinsælustu áfangastaðirnir, hafa á undanförnum árum tekið upp harðari stefnu gagnvart flóttamönnum og hert aðgerðir sínar til að koma í veg fyrir straum flóttamanna og innflytjenda.
Í skýrslu, sem var gerð af Mixed Migration Center, í lok síðasta árs kemur fram að tæplega 70 prósent þeirra sem hafa flust á milli landa myndu gera það aftur og það þrátt fyrir að hafa þurft að sæta kynferðislegu ofbeldi, líkamlegu ofbeldi, ránum eða orðið fórnarlömb mannræningja.
Frá því að flóttamannastraumur skall á Evrópu af miklum krafti 2015 hafa ríki Evrópu notað háar fjárhæðir til aðgerða sem eiga að stöðva straum ólöglegra innflytjenda frá Afríku. Gæsla á ytri landamærum álfunnar hefur verið hert og gripið til ýmissa aðgerða til að halda aftur af flóttamönnum.
Á heimsvísu eru það Bandaríkin sem eru draumaland flestra þeirra sem vilja flytja frá landi sínu. Rúmlega fimmti hver hugsanlegi innflytjandi nefndi Bandaríkin sem það land sem þeir vilja helst fara til. Þýskaland og Frakkland eru eftirsóttustu Evrópuríkin en fimm til sex prósent aðspurðra sögðust vilja fara þangað.