Hinir ýmsu hópar á þinginu hafa ýmsar ástæður til að hafna samningnum. Corbyn sagði á fréttamannafundi í gær að þegar búið verður að fella samninginn muni hann reyna að fá meirihluta á þingi til að leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórn May og þar með að boðað verði til kosninga.
Hann sagði að ef ríkisstjórnin getur ekki komið mikilvægasta frumvarpi sínu í gegnum þingið þá verði að boða til kosninga sem fyrst. Verkamannaflokkurinn sé ekki með nægan þingstyrk til að geta einn komið vantraustillögu í gegnum þingið þannig að þingmenn annarra flokka verði að greiða atkvæði með tillögunni og binda enda á ástandið.
Corbyn segist þess fullviss að Verkamannaflokkurinn geti náð betri samningi við ESB en viðurkennir að það krefjist þess að Brexit verði frestað en útgangan á að verða þann 29. mars næstkomandi.
Ef ekki tekst að knýja fram kosningar er varaáætlunin að knýja fram nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. BBC segir að vaxandi þrýstingur sé innan Verkamannaflokksins um að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.