Það var CHIME sjónaukinn í Kanada sem nam merkin sem voru 13 talsins en meðal þeirra var endurtekið merki.
CHIME samanstendur af fjórum hundrað metra löngum, hálf kúlulaga sívalningum sem skanna himinhvolfið yfir norðurhveli jarðar alla daga. Verkefnið hófst á síðasta ári og var rétt nýhafið þegar merkin bárust.
BBC skýrir frá þessu og hefur eftir Shriharsh Tendulkar hjá McGill-háskólanum í Kanada að merkjasending hafi aftur verið numin frá sama upphafsstaðnum og líkist hún þeirri fyrri mikið.
Fram að þessu hafa vísindamenn numið 60 merkjasendingar sem þessar og tvær sem hafa verið endurteknar. Talið er að allt að 1.000 FRB geti verið í geimnum á degi hverjum. Ingrid Stairs, stjarneðlisfræðingur við University of British Columbia, segir að eftir því sem fleiri merki sem þessi séu numin hér á jörðinni af fleiri rannsóknarstöðvum aukist líkurnar á að hægt verði að útskýra hver uppruni þeirra er.
Margar kenningar eru á lofti um uppruna þeirra. Þeir allra djörfustu telja að merkin séu frá geimfari vitsmunavera en aðrir hallast frekar að því að hér geti verið um merki frá nifteindastjörnu sem snýst ógnarhratt og er með öflugt segulsvið í kringum sig eða að tvær nifteindastjörnur hafi runnið saman í eina.