fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Pressan

Svæfingalæknirinn „Zorro“ – Ákærður fyrir að myrða sjúklinga í þeim tilgangi að endurlífga þá

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 22. júní 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dauðinn kom í sprautu og aðferðin var alltaf sú sama. Sprautunál var notuð til að gera gat á poka sem notaður var til að gefa sjúklingum vökva í æð. Sprautan var síðan notuð til þess að sprauta deyfilyfi eða kalium í pokann, með þeim afleiðingum að upp komu alvarleg vandmál með hjarta sjúklingins á meðan á aðgerðinni stóð, eða jafnvel hjartastopp. Níu sjúklingar létust á þennan hátt í aðgerð á heilsugæslustöð í Besancon í suðausturhluta Frakklands á árunum 2008 til 2017. Fimmtán þeirra sem eitrað var fyrir lifðu af.

Það óttast það sennilega allir að þeir muni ekki vakna aftur eftir svæfingu. Í Frakklandi er læknir ákærður fyrir að hafa eitrað fyrir sjúklingum sínum 24 sinnum. Lögreglan grunar svæfingarlækninn Frédéric Péchier um að hafa eitrað fyrir alls 24 sjúklingum og að hafa reynt að myrða vinnufélaga sinn á sama hátt. Hann neitar sök og gengur laus þar til mál hans verður tekið fyrir.

Málið hefur vakið óhug meðal margra Frakka, enda óttast margir að lenda á skurðarborðinu og vakna aldrei aftur. Málið vekur einnig upp spurningar um það hvort maður geti treyst læknum og hjúkrunarfólki í blindni. Hneykslismál sem þetta eru sjaldgæf en koma þó reglulega upp.

Sem dæmi má nefna að landsrétturinn í Oldenburg í Þýskalandi dæmdi fyrir nokkru hinn 42 ára gamla hjúkrunarfræðing, Niels Högel, í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt 85 sjúklinga á árunum 2000 til 2005. Það mál líkist máli hins franska Frédéric Péchier. Högel sprautaði sjúklingana með banvænu efni með þeim afleiðingum að þeir fóru í hjartastopp, að sögn til þess að geta endurlífgað þá. Endurlífgunin tókst þó ekki alltaf.

Í Ohio er læknirinn William Husel sakaður um morð á 25 sjúklingum á sjúkrahúsi í Columbus. Samkvæmt ákærunni drap læknirinn oft alvarlega veika sjúklinga með því að gefa þeim of stóra skammta af verkjarlyfinu fentanýl.

Ekki tilviljun

Breska dagblaðið The Times segir að það sé ekki tilviljun að læknar eða hjúkrunarfræðingar beri ábyrgð á þremur af sex stærstu fjöldamorðum síðari tíma, þar sem einn einstaklingur hefur verið að verki.

Líkt og læknirinn Harold Shipman frá Manchester, sem drap á árunum 1974 til 1998 218 sjúklinga með því að gefa þeim banvæna skammta heróíns, án þess að upp um hann kæmist, líður oft langur tími áður en grunsemdir vakna.

Læknar hafa í starfi sínu aðgang að lyfjum og eiga auðveldara en aðrir með að fela sönnunargögn, einnig eru vinnufélagar oft ekki viljugir til þess að setja fram ásakanir af ótta við að vera hundsaðir eða útilokaðir.

Saksóknarinn í Besancon í Frakklandi heldur því fram að hinn 47 ára gamli Frédériv Péchier hafi í níu ár haft frjálsar hendur til þess að sinna þessum myrkraverkum.

Grunur beindist að honum í janúar 2017 eftir að óútskýrð hjartavandamál komu upp hjá sjúklingum sem gengust undir aðgerð á einkaheilsugæslunni Saint-Vincent.

Stjórn sjúkrahússinns ákvað að fara af stað með rannsókn og grunurinn beindist fljótlega að Frédériv Péchier, sem var ein af stórstjörnum heilsugæslunnar. Hann fór fyrir liði 10 svæfingarlækna og framkvæmdi sjálfur um 2.000 svæfingar á ári.

Í skýrslu sem gefin var út af heilbrigðisyfirvöldum á svæðinu var niðurstaðan sú að um viljaverk hefði verið að ræða. Í skýrslunni kom einnig fram að tvö svipuð atvik hefðu komið upp árið 2008. Þetta kom skriði á rannsóknina og læknirinn var í mars 2017, handtekinn í fyrsta sinn og sakaður um að hafa eitrað fyrir sjö sjúklingum. Þetta voru fjórar konur og þrír karlar á aldrinum 37 til 53 ára og létust tvö þeirra í einföldum aðgerðum.

Stóð til að myrða vinnufélaga?

Eftir þetta hefur fjöldi annarra mála bæst við, eitt þeirra er mál hins fjögurra ára gamla Teddy, sem var lagður inn í febrúar 2016 í kirtlatöku. Hann fór í hjartastopp á meðan á aðgerðinni stóð, hann var endurlífgaður en á í dag við sálræn vandamál að stríða.

Á þessu ári bættust við ákærur um 17 eitranir til viðbótar, þar af létust sjö. Péchier neitar sök og heldur því fram að þetta sé samsæri vinnufélaganna gegn honum.

Að frátöldu einu tilfelli var aldrei um sjúklinga Pélchier sjálfs að ræða. Læknirinn er aftur á móti grunaður um að hafa sprautað banvænum lyfjum í lyfjapoka sjúklinga vinnufélaga sinna. Þegar upp komu hjartavandamál hjá sjúklingunum hljóp hann til og sýndi hæfileika sína við endurlífgun sjúklinganna.

Samkvæmt saksóknaranum eitraði Pélchier fyrir einum sjúklinga sinna, 72 ára gömlum karlmanni, til þess að beina gruninum frá sér. Á þann hátt gat hann haldið því fram að hann væri líka fórnarlamb.

En í öllum 24 tilvikunum var svæfingarlæknirinn sá eini sem var viðstaddur og þegar honum var, í tenglsum við rannsóknina, bannað að nálgast sjúkrahúsið hættu eitranirnar.

Meðal vitnanna í máli læknisins er fyrrverandi vinnufélagi hans, hin 64 ára gamla Catherine Nambot. Hún kallaði Péchier einu sinni Zorro, sem elskaði hlutverk sitt sem bjargvættur. En árið 2008 lést einn af sjúklingum Nambot, hann fór í hjartastopp í einfaldri aðgerð. Krufning og blóðprufur leiddu í ljós að sjúklingurinn hafði fengið deyfilyf sem hún notaði aldrei sjálf.

Átta árum síðar var Nambot sjálf í hættu á að verða næsta fórnarlamb. Þegar hún var lögð inn til að fara í einfalda aðgerð á öxl, bað Péchier um að fá að deyfa hana. Vegna mistaka lenti vökvapokinn með eitrinu í vitlausri skurðstofu, þar sem annar sjúklingur, Laurence Nicod, lést af völdum hjartaáfalls sama dag. Samkvæmt þeim sem rannsaka málið leikur enginn vafi á því að vinnufélaginn átti að fá lyfið. Rannsókn á andlegri heilsu læknisins leiddi í ljós að hann er með flókinn persónuleika með perverskar og sjálfselskar tilhneigingar.

Kona læknisins, Nathalie Péchier, segir við Le Monde að þetta sé algjört bull: „Ég hef þekkt hann í 20 ár og ég veit að hann getur ekki gert neinum mein. Ég vann á geðdeild í sex mánuði áður en ég varð hjartalæknir, ég hef hitt marga sem eru veikir á geði, fólk með geðklofa og aðra geðsjúkdóma. Ég get fullvissað ykkur um að maðurinn minn er alheilbrigður.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fíll stangaði ferðamann til bana

Fíll stangaði ferðamann til bana
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára stúlka alvarlega veik af fuglaflensu – Sérfræðingur segir þetta vera hættumerki

13 ára stúlka alvarlega veik af fuglaflensu – Sérfræðingur segir þetta vera hættumerki
Pressan
Fyrir 5 dögum

Veirufaraldur í Kína

Veirufaraldur í Kína
Pressan
Fyrir 5 dögum

Tveggja barna faðir þurfti aðeins að skreppa en sást aldrei aftur á lífi

Tveggja barna faðir þurfti aðeins að skreppa en sást aldrei aftur á lífi