Eldurinn í Hässleholm kviknaði um 11 í gærmorgun í hlöðu og breiddist fljótt út í skraufþurran gróðurinn. 47 manns hafa þurft að yfirgefa 23 hús á svæðinu. Nú þegar hafa eitt bóndabýli, fjölbýlishús og nokkur minni hús orðið eldinum að bráð. Strekkingsvindur gerir slökkviliðsmönnum erfitt fyrir í baráttunni við eldinn.
Í Sokndal í suðurhluta Noregs þurfti að rýma 160 heimili í gærkvöldi en þar breiðist skógareldur hratt út í skraufþurrum gróðri og strekkingsvindur eykur á útbreiðsluna.
Bæði í Svíþjóð og Noregi voru þyrlur notaðar við slökkvistörf í gær en gera þurfti hlé á notkun þeirra í nótt vegna myrkurs.
Snemma í morgun var byrjað að nota sex þyrlur við slökkvistarfið í Sokndal og leggja þær slökkviliðsmönnum, almannavörnum og heimavarnarliðinu lið við slökkvistarfið sem gengur illa.