Í árslok 2002 tók hljómsveitin evrópska vinsældalista með áhlaupi með laginu „All the Things She Said“ sem átti auðvitað einnig miklum vinsældum að fagna í heimalandi þeirra. Myndbandið við lagið olli víða miklu fjaðrafoki en í því kysstust stúlkurnar tvær.
Hljómsveitin var stofnuð 1999 þegar Ivan Shapovalov, fyrrum barnasálfræðingur og síðar starfsmaður á auglýsingastofu, hratt nýju tónlistarverkefni af stokkunum. Hann ætlaði sér að stofna næstu stóru popphljómsveit Rússlands. Hann stóð því fyrir áheyrnarprufum í Moskvu til að finna réttu söngkonurnar. Fyrir valinu urðu 14 ára vinkonur, Lena Katina og Julia Vokova. Þær hófust strax handa og um haustið var fyrsta plata þeirra tekin upp. Shapovalov hafði einnig lúmska almannatengslabrellu í fararteskinu. Kynna átti t.A.T.u. sem tvær lesbískar unglingsstúlkur í skólabúningum. Fyrsta lag þeirra, rússneska útgáfan af „All the Things She Said“ fjallaði einmitt um óhamingjusama ást tveggja stúlkna á hvor annarri.
Þær urðu fljótt vinsælar í Rússlandi. Flest laga þeirra fjölluðu um kynlíf, ást og lesbíska ást. En t.A.T.u. stefndi lengra en bara á rússneska markaðinn. Þegar stöllurnar voru orðnar 16 ára byrjuðu þær að hljóðrita lög á ensku og síðan gerðust hlutirnir hratt. Þær slógu í gegn utan Rússlands.
Þær kepptu í Eurovision fyrir Rússland 2003 og vöktu mikla athygli og fengu mikið umtal, aðallega vegna meints ástarsambands þeirra og framkomu. Þær þóttu dónalegar og hegðuðu sér eins og prímadonnur. Púað var á þær þegar þær komu fram á æfingum og í keppninni sjálfri. Þar sem talið var líklegt að þær myndu kyssast á sviði ætlaði EBU, sem stendur fyrir keppninni, að hafa upptöku af atriði þeirra tilbúna til að sýna þegar keppnin færi fram þar sem það þótti ekki við hæfi að þær væru að kyssast á sviði í fjölskylduþætti eins og Eurovision. Það var þó hætt við það og Lena og Julia létu kossaflens eiga sig í beinni útsendingu.
https://www.youtube.com/watch?v=1TouzY3_yq0
En stúlkurnar voru ekki lesbíur þrátt fyrir að þær héldu því fram, það seldi greinilega betur. Fljótlega fór orðrómur af stað um að lesbíu ímyndin væri bara markaðsbrella og síðar kom í ljós að svo var. Sumir hafa sagt að markaðssetningin á t.A.T.u. hafi spilað stíft inn á barnagirnd með því hvernig þær klæddust og létu vel að hvor annarri á sviðinu. Síðasti naglinn í líkistu lesbíuorðrómsins var síðan sleginn 2004 þegar Julia tilkynnti að hún ætti von á barni með unnusta sínum (karlmann).
Þegar að lesbíuímyndin hvarf fóru vinsældir t.A.T.u. hratt dvínandi. Hljómsveitin lagði upp laupana 2011.