Í síðustu viku kynnt spænska veðurstofan veðurgögn frá 58 veðurstöðvum á árunum 1981 til 2018. Fram kemur að á þessum tíma hafa sumrin á Spáni lengst með hverjum áratugnum. Að meðaltali hafa sumrin á meginlandinu lengst um níu daga á hverjum áratug síðan í upphafi níunda áratugarins. Opinberlega er sumarið á Spáni frá 21. júní til 21. september.
El Mundo hefur eftir talsmanni spænsku veðurstofunnar að sumrin séu nú að meðaltali fimm vikum lengri en þau voru í upphafi níunda áratugarins.
Mesta breytingin á þessum tíma hefur orðið á veðurstöðinni á Gandoflugvellinum á Gran Canaria. Þar hafa sumrin að meðaltali lengst um 16 daga á hverjum áratug síðan 1981. Sumrin hafa því lengst um tvo mánuði síðan 1981.
Í Santa Cruz á Tenerife hafa sumrin lengst um 12 daga að meðaltali á hverjum áratug frá 1981 eða um einn og hálfan mánuð.
Frá og með 2010 til og með 2017 var meðalhitinn yfir meðallagi á Gran Canaria eða 2,1 gráðu. Síðasta ár var hins vegar kaldara en venja er til en hitinn var undir meðallagi í sjö mánuði.
Hitinn í febrúar og mars á þessu ári er hins vegar yfir meðallagi en janúar var örlítið undir meðallagi.
Sumrin og vorin eru þeir árstímar sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af völdum loftslagsbreytinganna á Spáni og frá 2011 hefur öfgakennt veðurfar færst í aukana á Spáni. Fimm „mjög heit“ ár mældust á 37 af 58 veðurstövðum frá 2011 til 2018. Þá vara hitabylgjur orðið lengur en þær gerðu og hitabeltisnóttum hefur fjölgað. Allt hefur þetta áhrif á heilsu almennings.
Flest bendir til að hitabylgjum muni fjölga og þær verða lengri en áður og kuldaköstum fækka. Sérfræðingar óttast að þetta geti leitt til þess að hitabeltissjúkdómar verði algengari á Spáni. Hækkandi hiti getur leitt til þess að mý, sem ber með sér hættulega smitsjúkdóma, geti hreiðrað um sig og þannig ógnað heilsu fólks.