Skýrslan var kynnt í gær og sagði António Guterres, aðalritari SÞ, að hún væri „enn ein áminningin“ til ríkisstjórna ríkja heims og iðnaðarins.
„Skýrslan sýnir, það sem við höfum lengi sagt, að loftslagsbreytingarnar eru hraðari en aðgerðir okkar til að stöðva þær.“
Sagði hann.
WMO segir í skýrslunni að meðalhitinn á heimsvísu sé nú einni gráðu hærri en hann var þegar iðnbyltingin hófst um 1760. Þrátt fyrir að þetta kunni að þykja lítil aukning þá getur hún haft alvarlegar afleiðingar fyrir veður í heiminum að sögn Petteri Taalas, aðalritara WMO.
Hann sagði að við höfum upplifað mun fleiri náttúruhamfarir af völdum loftslagsbreytinga og hitaaukningar en áður og þetta hafi alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir milljónir manna.
SÞ segja að 4,5 milljarðar manna hafi orðið fyrir beinum áhrifum að öfgaveðurfari síðan 1998. Á síðasta ári telur stofnunin að 62 milljónir manna hafi orðið fyrir barðinu á öfgaveðri. Á sama tíma neyddust tvær milljónir manna til að yfirgefa heimili sín vegna veðurfars.
Síðustu fjögur ár eru þau hlýjustu síðan mælingar hófust.