Samkvæmt frétt Iltalethi þá herma heimildir innan lögreglunnar að Næturúlfarnir hafi hreiðrað um sig í Forssa í suðurhluta landsins fyrr á árinu.
Lögreglan staðfesti þetta á Twitter og sagði að Næturúlfarnir væru talin skipulögð glæpasamtök. Næturúlfarnir eru á lista Bandaríkjanna yfir félög og einstaklinga sem sæta refsiaðgerðum vegna innlimunar Krímskaga í rússneska ríkjasambandið.
Á Facebooksíðu Næturúlfanna voru nýlega birtar myndir af nokkrum finnskum félögum klúbbsins þar sem þeir voru staddir í Moskvu og fengu afhent leðurvesti með einkennismerkjum klúbbsins. Forseti klúbbsins, Aleksander Zaldostanov, afhenti vestin. Hann hlaut sérstaka heiðursorðu Pútíns 2013 en þeir eru góðir vinir.
Um 7.000 manns eru í Næturúlfunum í Rússlandi. Klúbburinn starfrækir einnig deildir í Búlgaríu, Bosníu, Serbíu, Úkraínu, Sviss, Austurríki, Slóvakíu og Frakklandi. Á heimasíðu klúbbsins kemur einnig fram að hann sé einnig með meðlimi í Svíþjóð og á Spáni.
Rússnesk yfirvöld segja að höfuðstöðvar klúbbsins í Evrópu séu í Slóvakíu. Forseti Slóvakíu, Andrej Kiska, sagði á síðasta ári að klúbburinn væri ekkert annað en verkfæri rússneskra stjórnvald og sagði höfuðstöðvar hans í landinu vera ógn við öryggi ríkisins.
Klúbburinn telst vera öfgahægrisinnaður þjóðernisflokkur.