Tilkynnt var um bannið á fréttamannafundi í gær. Um leið var neyðarástandi lýst yfir í sýslunni en þar hafa 150 manns greinst með mislinga síðan síðasta haust. Ed Day, formaður sýslustjórnar, sagðist vonast til að bannið yrði til þess að vekja foreldra til meðvitundar og átta sig á alvarleika málsins.
Bannið nær til allra yngri en 18 ára og gildir næstu 30 daga. Þeir sem eru yngri en 18 ára og hafa ekki verið bólusettir mega því ekki halda sig á opinberum stöðum á borð við skóla, verslunarmiðstöðvar, veitingastöðum og kirkjum. Allt að sex mánaða fangelsi liggur við brotum gegn banninu.
Á fréttamannafundinum kom fram að það sé samt sem áður ekki markmið yfirvalda að láta handtaka fólk heldur sé markmiðið með banninu að leggja áherslu á alvöru málsins. Foreldrar óbólusettra barna verða látnir sæta ábyrgð ef börn þeirra brjóta gegn banninu.
Yfirvöld vonast til að bannið verði vendipunkturinn í baráttunni gegn mislingum.
Í Rockland County er stór hluti mislingasmitanna meðal gyðinga en bólusetningarhlutfall hjá þeim er lægra en hjá öðrum samfélagshópum. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld telja bestu vörnina gegn mislingum vera að ná bólusetningarhlutfallinu upp í 92 til 95 prósent en í Rockland County er það aðeins 72,9 prósent meðal þeirra sem eru yngri en 18 ára. Um 300.000 manns búa í sýslunni.