Ungu hjónin voru kyrkt á heimili sínu en þau voru nýflutt inn í húsið. Morðingi þeirra var Cecil Stan Caldwell en hann lést 59 ára að aldri árið 2003. Á fréttamannafundi á mánudaginn skýrði talsmaður lögreglunnar frá því að málið væri leyst. Hann sagði margar kenningar vera á lofti um af hverju Caldwell myrti ungu hjónin en við þeim fáist aldrei svar. Lögreglan telur þó líklegast Caldwell hafi viljað vinna Lindu mein. Hún var bundin og henni nauðgað áður en hún var myrt. Caldwell vann með henni. Hann kom aldrei við sögu lögreglunnar á meðan hann lifði.
Clifford vann við steypuvinnu en hann var uppgjafahermaður úr Víetnamstríðinu. Linda vann á lager. Þau höfðu verið gift í mörg ár.
Mörg hundruð manns voru yfirheyrðir og miðill var fenginn til aðstoðar en án árangurs.
En ný tækni varð til þess að hægt var að leysa málið. Lífsýni úr morðingjanum var ekki að finna í skrám lögreglunnar en dna, sem líktist því, fannst í gagnagrunni sem fólk skráir dna sitt í tengslum við ættfræðirannsóknir. Út frá því gat lögreglan rekið sig áfram til Caldwell. Þetta er sama tækni og hefur undanfarið verið notuð til að upplýsa nokkur gömul sakamál í Bandaríkjunum. Þekktast þeirra er líklegast mál Golden State raðmorðingjans.