Bílstjórinn, Ousseynou Sy, sagðist með þessu vera að mótmæla dauða flóttafólks á Miðjarðarhafi.
Þegar lögreglan stöðvaði akstur skólabílsins eftir 40 mínútna ferð var börnunum bjargað út um afturenda bílsins eftir að lögreglan hafði brotið rúðurnar. Bílstjórinn hafði áður lokað dyrunum með keðjum og helt bensíni yfir stóra hluta af bílnum. Þegar hann stóð andspænis lögreglunni kveikti hann í bílnum sem er ónýtur eftir brunann.
„Ég vil að þessu ljúki. Við verðum að stöðva dauða flóttamanna á Miðjarðarhafi.“
Öskraði hann að sögn ítalskra fjölmiðla.
Hann er frá Senegal en er ítalskur ríkisborgari og býr í Cremona með eiginkonu og tveimur börnum. Hann hefur unnið fyrir rútufyrirtækið í 15 ár án þess að nokkuð hafi komið upp á. Hann verður nú meðal annars ákærður fyrir mannrán og tilraun til fjöldamorðs.
Matteo Salvini, innanríkisráðherra, segir að Ousseynou hafi áður hlotið dóm fyrir kynferðisbrot og akstur undir áhrifum áfengis.
Ramy var í skólabílnum þegar Ousseynou byrgði dyrnar og tók farsímana af öllum börnunum og þeim fullorðnu sem einnig voru í bílnum. Ramy tókst að fela farsíma sinn segir í umfjöllun BBC.
„Hann er hetjan okkar.“
Sagði einn bekkjarfélagi hans eftir frelsunina.
Ramy hringdi í föður sinn en lést vera að biðja bænir á arabísku til að blekkja Ousseynou. Þegar faðir hans svaraði sagði Ramy honum málavöxtu og faðirinn hafði síðan samband við lögregluna sem brást að vonum skjótt við.