Geimferðir geta gert meinlausar bakteríur að sjúkdómsvaldandi bakteríum. Það er ekki á geimfarana bætandi því þeir búa við andlegt og líkamlegt álag og eru í umhverfi þar sem þeir verða fyrir geimgeislun og eru í nær algjöru þyngdarleysi. Þetta gerir þá viðkvæma fyrir sýkingum.
Á meðan geimfarar verða veikburða við dvöl í geimnum styrkjast bakteríur og auka ónæmi sitt gegn sýklalyfjum. Ekki nóg með það því bakteríurnar hafa hæfileika til að styrkjast við erfiðar aðstæður og þessir hæfileikar geta breiðst út á milli mismunandi baktería og þannig myndast enn fleiri slæmar bakteríutegundir.
Í varúlfamyndum er silfur nánast það eina sem dugir til að stöðva þessi óargardýr. En silfur virðist einnig bíta á bakteríum. Öldum saman hefur það verið notað til að vinna á bakteríum og er í dag notað í lækningaskyni auk ýmislegs annars. Það er einnig notað til að koma í veg fyrir að bakteríur nái að skjóta rótum. En það er kannski ákveðin kaldhæðni fólgin í því þar sem það getur verið ástæða fyrir því að bakteríur verða harðgerari.
En vísindamenn við Berlínarháskóla hafa nú þróað aðferð til að nota silfur til að vinna á bakteríum. Þeir blanda því saman við annað frumefni, ruthenium. Þessi blanda vinnur á nær öllum tegundum baktería. Nú er búið að maka svona blöndu á flöt í geimstöðinni, sem var þakinn bakteríum. Það voru klósettdyrnar. Blandan svínvirkaði.