The Wall Street Journal skýrir frá þessu. Blaðið segir að Biden hafi sagt nokkrum stuðningsmönnum sínum að hann hafi í hyggju að bjóða sig fram. Þá talaði hann af sér á fundi með demókrötum í Delaware um helgina. Þá sagði hann að „hann væri framsæknastur þeirra sem bjóða sig fram“. Þegar áheyrendur fögnuðu þessu leiðrétti hann sig og sagði „allra þeirra sem hugsanlega bjóða sig fram“.
The Wall Street Journal segir að Biden hafi sett sig í samband við marga stuðningsmenn sína því hann þarfnist aðstoðar við að safna fé í kosningasjóð. Hann er sagður hafa hringt í að minnsta kosti sex manns í gær og sagt þeim að hann hyggist bjóða sig fram en þarfnist aðstoðar við fjáröflun.
Biden hefur ekki staðfest framboð opinberlega en samt sem áður er hann efstur í skoðanakönnunum um fylgi þeirra demókrata sem hugsanlega munu keppa um að verða forsetaframbjóðandi flokksins.
Á fyrrnefndum fundi um síðustu helgi sagði Biden að forsetakosningarnar 2020 séu þær mikilvægustu í Bandaríkjunum öldum saman. Ef hann sigrar og verður kjörinn forseti verður hann 78 ára þegar hann tekur við völdum.