fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Pressan

Stærsta ráðgáta flugsögunnar

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 15. mars 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skömmu eftir miðnætti þann 8. mars 2014 settust 227 farþegar upp í flugvél frá Malaysian Airlines á flugvellinum í Kúala Lúmpúr. Eins og venjan er í flugvélum sá áhöfnin um að settum reglum væri fylgt hvað varðar frágang farms, að farþegarnir væru allir komnir um borð, og allt annað sem á henni hvílir að uppfylla áður en haldið er af stað.

Að þessu loknu fengu Zaharie Ahmad Shah flugstjóri og Fariq Abdul Hamid flugmaður heimild frá flugturninum til að aka út á flugbraut 32R og undirbúa flugtak. Þetta var ekkert frábrugðið öðrum flugferðum enda reglurnar og vinnuferlarnir nánast alltaf þeir sömu. Klukkan 00.42 hóf vélin sig til lofts og hækkaði flugið hratt upp í kolsvartan himininn. Stefnan var tekin á Beijing Capital International Airport í Kína þar sem vélin átti að lenda klukkan 06.30. Hinsta flug flugs MH370 frá Malaysian Airlines var hafið. Ein stærsta ráðgáta flugsögunnar var í uppsiglingu.

Um borð voru 239 manns; 227 farþegar og 12 manna áhöfn. Þar af voru 153 Kínverjar. Í heildina var fólk af 13 þjóðernum um borð. Meðal farþeganna var hópur 19 listamanna sem var á heimleið frá listaráðstefnu í Kúala Lúmpúr, kaupsýslufólk, fjölskyldufólk og einhleypt fólk.

„Good night. Malaysian three seven zero“

Svona hljóðuðu síðustu samskiptin við flugmenn flugs MH370 en þá var klukkan 01.19 og vélin var að koma inn í lofthelgi Víetnam. Hún komst aldrei í fjarskiptasamband við flugumferðarstjóra í Víetnam.

Síðari rannsóknir hafa leitt í ljós að sjálfvirk samskipti flugvélarinnar og flugumferðarstjóra í gegnum hið svokallaða ACARS-kerfi höfðu verið rofin þegar síðustu samskiptin áttu sér stað. Almennt er talið að samskiptin um ACARS-kerfið hafi verið rofin af ásetningi. Inmarsat-gervihnattakerfið nam sjálfvirkar merkjasendingar frá vélinni allt þar til klukkan 08.19. En neyðarkall barst aldrei frá vélinni. Út frá þeim gögnum sem gervihnettir móttóku frá vélinni er ljóst að þegar hún nálgaðist víetnamska lofthelgi var stefnu hennar breytt til vesturs og síðan til suðurs. Auk þess var flughæð vélarinnar ítrekað breytt. Hjá Malaysian Airlines vissi fólk strax um nóttina að eitthvað mikið var að, en þeim upplýsingum var haldið leyndum. Þeir sem biðu eftir vélinni í Peking sáu bara tilkynningu á upplýsingaskjáum um að vélinni hefði seinkað.

Klukkan 07.30 var boðað til fréttamannafundar þar sem tilkynnt var að flugs MH370 væri saknað og að verið væri að skipuleggja leit úr lofti og á sjó. Fréttin barst hratt um heiminn og varð fljótt aðalfrétt flestra fjölmiðla.

Flugmennirnir
Fariq Abdul Hamid og Zaharie Ahmad Shah.

Litlu nær

Aðstandendur fengu enga útskýringu á hvað hefði komið fyrir flugvélina og þá sem voru um borð. Nú, rúmum fimm árum síðar, hafa þeir ekki fengið neinar frekari skýringar. Málið hefur eiginlega frekar þróast í hina áttina og orðið enn dularfyllra. Mörgum spurningum er ósvarað og aðeins fáum spurningum um örlög vélarinnar hefur verið svarað til þessa. Á fyrstu dögunum, vikunum og mánuðunum eftir hvarf vélarinnar var umfangsmikil leit gerð að henni. En þessi leit, eins og síðari leitir, var nánast árangurslaus því flak vélarinnar fannst ekki og hefur ekki enn fundist. Háum verðlaunum var heitið þeim sem gæti fundið flak vélarinnar en það er talin forsenda þess að hægt verði að leysa þessa miklu ráðgátu. En án árangurs, flakið er ófundið.

Brak, sem að öllum líkindum er úr vélinni, hefur fundist eða 20 til 30 hlutir. Þeir fundust á reki í Indlandshafi eða við strendur sama hafs. Af þessum sökum og vegna þeirra merkjasendinga sem Inmarsat-gervihnattakerfið móttók hefur leitin að flaki vélarinnar að mestu beinst að Indlandshafi. Í janúar á þessu ári fannst brak, sem líklega er úr flugi MH370, á Madagaskar. Þetta dularfulla mál hefur að vonum orðið uppspretta ótal samsæriskenninga og kenninga um örlög vélarinnar og margir hafa stigið fram og fullyrt að þeir hafi leyst málið en það er nú samt enn óleyst.

Síðast var það indónesíski sjómaðurinn Rusli Khusmin sem komst í heimsfréttirnar þegar hann kom fram á fréttamannafundi í Indónesíu í janúar síðastliðnum og sagðist hafa séð vélina hrapa í sjóinn umrædda nótt þegar hann var á veiðum í Malacca-sundi á milli Indónesíu og Malasíu. Hann skráði GPS-hnitin hjá sér þessa nótt og skýrði frá þeim á fréttamannafundinum.

„Ég sá flugvélina fara frá vinstri til hægri eins og brotinn dreka. Það var ekkert hljóð. Bara svartur reykur frá eldi áður en hún hrapaði í sjóinn,“ sagði hann á fréttamannafundinum. En Khusmin gaf engar skýringar á af hverju hann hefði ekki skýrt frá þessu fyrr, en á fundinum sór hann við Kóraninn að hann væri að segja satt.

Í desember birti Cornell University umfangsmikla skýrslu, sem var gerð af danska prófessornum Martin Kristensen, um hvarf flugs MH370. Samkvæmt henni hrapaði vélin í sjóinn undan ströndum Jólaeyju, ástralskri eyju undan ströndum Indónesíu. Þar hefur ekki verið leitað að flakinu.

 

Flugrán er ekki talið útilokað

Í skýrslu Kristensen er sjónum beint að fjórum þáttum: hraða flugvélarinnar, magni eldsneytis, merkjasendingum frá henni og hinum svokölluðu doppleráhrifum. Niðurstaðan er að í tilfelli flugs MH370 séu aðeins fjórir staðir á jörðinni þar sem þessir fjórir þættir passa saman. Fyrsti staðurinn er í Indlandshafi en hann passar við það sem Inmarsat-gervihnattakerfið nam. Annar staðurinn er á landi í Kasakstan. En það á við um báða þessa staði að vélin hefði komið fram á ratsjám ef hún hrapað þar. Þriðji staðurinn er utan við Perth í vesturhluta Ástralíu en þar hefur ítrekað verið leitað að flakinu en án árangurs. Því stendur fjórði staðurinn einn eftir að mati Kristensen en hann er utan við Jólaeyju. Hann telur 90 prósent líkur á að flakið sé þar. Ef það er rétt hefur stefnu vélarinnar verið breytt mikið þegar hún var yfir Bengalflóa og henni hefur þá verið flogið meðfram ströndum Indónesíu. Kristensen telur að þessi stefnubreyting hafi verið gerð að yfirlögðu ráði og hann útilokar ekki að um flugrán hafi verið að ræða. Hann útilokar ekki heldur að flugstjórinn, Zaharie Ahmad Shah, hafi átt hlut að máli. Hann telur að hugsanlegir flugræningjar hafi mögulega ætlað að lenda vélinni á Súmötru. Annar möguleiki að hans mati er að flugræningjarnir hafi stokkið út í fallhlíf. Til þess að það væri hægt hefði þurft að lækka flugið mikið, hægja á vélinni og opna dyr. Ef þetta var gert og flugræningjarnir höfðu stillt sjálfstýringuna á að hækka flugið aftur hefði flugvélin, vegna hinna opnu dyra, flogið áfram með of lítinn loftþrýsting í farþegarýminu en það hefði haft í för með sér að reykjarslóði hefði myndast á eftir henni áður en hún hrapaði í sjóinn.

Í lokaskýrslu flugmálayfirvalda í Malasíu um málið, en hún var birt síðasta sumar, kemur fram að ekki sé útilokað að vélinni hafi verið rænt en ekki er farið nánar út í það frekar en annað því í skýrslunni er forðast að giska á hvað gerðist þessa örlagaríku nótt. Ef um vel skipulagt hryðjuverk var að ræða vantar algjörlega svör við hverjir stóðu á bak við það og hver tilgangurinn var. Enginn, að minnsta kosti sem mark er takandi á, hefur lýst yfir ábyrgð á hvarfi vélarinnar.

 

Var þetta sjálfsvíg?

Sú kenning sem hefur kannski fengið allra mesta umfjöllun í tengslum við hvarf vélarinnar er að flugstjórinn hafi ákveðið að fremja sjálfsvíg með því að granda vélinni og þar með öllum öðrum um borð. Ástæðan fyrir þessu hefur verið sögð að hann hafi glímt við persónuleg vandamál og hafa sumir fjölmiðlar nefnt að daginn áður en vélin hvarf hafi eiginkona hans tilkynnt honum að hún og börn þeirra vildu yfirgefa hann. Það var til að styrkja þennan orðróm að Andreas Lubitz, flugmaður hjá Germanwings, stýrði farþegavél með 149 öðrum um borð beint inn í fjallshlíð í frönsku Ölpunum ári síðar. Yfirvöld hafa algjörlega hafnað þessum kenningum og segja að engar sannanir hafi fundist fyrir að flugstjórinn eða flugmaðurinn hafi haft nokkur tengsl við hryðjuverkasamtök eða hafi verið í sjálfsvígshugleiðingum.

En þetta hefur ekki orðið til að gera út af við kenningar sem þessar. Fyrir þremur árum fjallaði New York Post um málið og kenninguna um að flugstjórinn hafi tekið áhöfnina og farþegana með sér í dauðann. Blaðið fjallaði á nýjan leik um upplýsingar þess efnis að flugstjórinn hafi æft sig á flugleið, sem svipar til þeirrar sem talið er að flug MH370 hafi farið nóttina örlagaríku, í einkaflughermi sínum. Í lok febrúar fjallaði ástralski netmiðillinn news.com.au einnig um þetta en útgangspunkturinn var ný bók rithöfundarins og blaðamannsins Eans Higgins, The Hunt for MH370, sem er nýkomin út. Í henni setur Higgins fram nokkrar kenningar um örlög flugs MH370. Meðal annars varpar hann því fram að flugstjórinn hafi sent flugvélina og alla um borð í dauðann en hafi sjálfur stokkið út í fallhlíf og lifað af. Higgins er sannfærður um að flugstjórinn, Zaharie Ahmad Shah, sé enn á lífi og fari huldu höfði með ástkonu sinni, einni af mörgum.

Íranirnir Pouria Nour Mohammad og Seved Mohammed Rezar Delawar vöktu líka áhuga rannsakenda en þeir voru báðir um borð í vélinni. Þeir ferðuðust undir fölskum nöfnum með stolin vegabréf sem hafði verið stolið frá Ítala og Austurríkismanni í Taílandi, þeim Christian Kozel og Luigi Maraldi. Íranirnir voru því fljótt stimplaðir hryðjuverkamenn. En rannsókn leiddi í ljós að þeir voru hafðir fyrir rangri sök. Þeir höfðu ætlað að komast til Evrópu í gegnum Peking og þaðan til Amsterdam. Þeir ætluðu að sækja um pólitískt hæli í Evrópu.

 

Zahid Raza
Myrtur eftir að hann rannsakaði hvarfið.

Ein stór ráðgáta

Auk fyrrgreindra kenninga hefur því verið velt upp hvort sprenging hafi orðið í vélinni af slysni eða hvort hryðjuverkamenn hafi notað fjarstýrð flugför til að granda henni. Sumir eru sannfærðir um að vélin hafi ekki lent í sjónum, heldur hafi flugmenn hennar verið neyddir til að lenda á óþekktum stað. Samsæriskenningasmiðir eru að vonum í essinu sínu og eru þess fullvissir að yfirvöld viti vel hvað kom fyrir flugvélina en leyni því af pólitískum ástæðum. Margir aðstandendur, þeirra sem voru um borð, telja að fólkið sé enn á lífi.

Það ýtti enn undir samsæriskenningar að þann 24. ágúst 2017 var Zahid Raza, sem var konsúll Malasíu á Madagaskar, myrtur. Hann hafði rannsakað hvarf flugs MH370 af miklum krafti og ætlaði, rétt áður en hann var myrtur, að afhenda yfirvöldum í Malasíu brak úr vélinni. Morðið hristi vel upp í samsæriskenningum og gaf þeim byr undir báða vængi.

En málið er enn óleyst og ekkert útlit fyrir að það sé að leysast. Um 30 ríki hafa komið að leitinni, þar á meðal Ástralía, Kína, Bandaríkin og Malasía. Leitin að vélinni er sú umfangsmesta og dýrasta í sögu flugsins.

MH370
Hvarf með 239 manns um borð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 6 dögum

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans