Skyndilega kom annar sonurinn, Kristoffer sem er þriggja ára, hlaupandi til móður sinnar og stökk í fang hennar.
„Skyndilega fór Kristoffer að gráta aðeins og settist í kjöltu mína. Við héldum að hann hefði verið stunginn af geitungi eða hefði rispað sig á grein.“
Sagði Elisabeth í samtali við Norska ríkisútvarpið. Hún hafði þá enga hugmynd um hversu alvarlegt málið var.
Eftir 15 mínútur fór fótur Kristoffers að bólgna upp og blána.
„Fjótlega kom sjúkrabíll og þyrla. Þeir staðfestu að hann hafði verið bitinn af höggormi og við vorum flutt á sjúkrahúsið í Skien.“
Kristoffer fékk móteitur við bitinu og sýndi fljótt batamerki og hlutirnir litu vel út. En síðan fór að síga á ógæfuhliðina og ástandið versnaði mikið. Í ljós kom að bitið hafði valdið blæðingu í þörmum hans og því þurfti að flytja hann á sjúkrahús í Osló. Blóðgildi hans mældist 5 en ætti að vera um 11. Þá léttist hann hratt, eða úr 20 kílóum í 15.
Það er misjafnt hvernig líkami fólks bregst við höggormsbiti en alvarleg einkenni gera oft vart við sig hjá börnum. Bit þeirra getur verið banvænt.
Eftir 10 daga dvöl á sjúkrahúsi fékk Kristoffer að fara heim. Hann slapp vel frá þessu en gekk samt sem áður í gegnum mikil veikindi. Elisabeth segist munu bera meiri virðingu fyrir höggormum í framtíðinni og muni sjá til þess að börnin séu í stígvélum þegar þau eru úti í háu grasi.