Kannski má segja að Kelsey hafi glímt við fleiri áföll í lífinu en allir sjúklingar Fraiser til samans. Ef einhver hefði skilað handriti, byggðu á lífi Kelsey, inn til sjónvarpsstöðvar hefði því jafnvel verið hafnað á þeim forsendum að það væri svo lygilega ósennilegt.
Kelsey, sem er 64 ára, hefur upplifað miklar hremmingar í einkalífinu. Faðir hans var skotinn til bana af brjálæðingi, systur hans var nauðgað á hrottalegan hátt og hún myrt og hákarl drap hálfbróðir hans.
Þá var barnæska hans allt annað en hamingjusöm, hann á þrjú misheppnuð hjónabönd að baki, eiginkonur hans hafa misst nokkur fóstur, hann hefur fengið hjartaáfall og barist við áfengis- og lyfjafíkn. Það þarf því kannski ekki að furða að afi hans sagði honum eitt sinn að fjölskyldan hefði verið bannfærð, nokkrum árum síðar lést afinn af völdum krabbameins.
En þrátt fyrir allar þessar hremmingar hefur fjögurra áratuga ferill Kelsey í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu gengið vel fyrir sig. Hann er einn af ástsælustu gamanleikurum Bandaríkjanna og hefur alltaf getað fengið fólk til að hlæja. Hann hefur hlotið mörg eftirsótt verðlaun fyrir leik sinn og er enn að leika í sjónvarpi. Fljótlega hefur ný dramaþáttaröð, Proven Innocent, með honum í aðalhlutverki göngu sína í bandarísku sjónvarpi. Þar leikur hann lögfræðing. En í einkalífinu háir hann einnig lagalega baráttu því hann berst nú fyrir því að beiðni um reynslulausn eins morðingja systur hans verði hafnað.
Þegar systir hans, Karen, var 18 ára var hún þvinguð inn í bíl af fjórum mönnum. Þeir nauðguðu henni í fjórar klukkustundir áður en þeir hentu henni út í hjólhýshverfi þar sem þeir stungu hana til bana. Þetta var 1975.
Dauðadómum tveggja af fjórmenningunum var síðar breytt í lífstíðarfangelsisdóma. Annar þeirra, Freddie Glenn, hefur sótt um reynslulausn og verður málið tekið fyrir í næstu viku. Hann sótti síðast um reynslulausn 2009 og þá mætti Kelsey fyrir nefndina, sem tekur ákvörðun um slíkt, og talaði gegn beiðninni.
En þetta var ekki fyrsta áfallið sem reið yfir Kelsey. Þegar hann var tveggja ára skildu foreldrar hans og hann og Karen fluttu með móður sinni til afa síns í New Jersey. Afinn lést af völdum krabbameins þegar Kelsey var 12 ára. Tveimur árum síðar var faðir hans skotinn til bana af brjálæðingi sem hafði ginnt hann út um miðja nótt með því að kveikja í bíl hans. Morðinginn, Arthur Niles, var metinn geðveikur og var vistaður á geðdeild.
Þegar hann var tvítugur var Karen systir hans myrt eins og fyrr segir. Sjálfur segir hann að morðið á Karen sé það sem hefur reynst honum erfiðast. Í kjölfarið var hann rekinn úr leiklistarskóla og fór að misnota áfengi og lyf. Hann náði sér upp úr því og í byrjun níunda áratugarins fór lífið batnandi og hann byrjaði að leika í sjónvarpsþáttum en þá skall óhamingjan aftur á honum. Í júní 1980 létust hálfbræður hans, Stephen og Billy Grammer, þegar þeir voru við köfun. Talið er að hákarl hafi drepið Billy. Stephen lést af völdum blóðtappa eftir að hafa farið of hratt upp úr djúpinu.
Kelsey fékk stóra tækifærið 1984 þegar hann fékk hlutverk Fraiser Crane í Staupasteini. Hann glímdi þá við alkóhólisma og eiturlyfjafíkn og komst oft í kast við lögin. Frá 1988 til 1991 var hann þrisvar handtekinn fyrir að aka undir áhrifum áfengis og kókaíns. Hann slapp með 30 daga fangelsisdóm.
Ástarlífið var einnig erfitt. Skilnaðir, barneignir og fósturmissir settu svip sinn á næstu ár.
Eftir margra ára glímu við áfengi og eiturlyf fór Kelsey í meðferð á Betty Ford Center og losnaði loks undan oki fíknarinnar.
Hann giftist enn á ný 1997 en skildi 2010. 2008 fékk hann hjartaáfall en lífi hans var naumlega bjargað.
2011 kvæntist hann bresku flugfreyjunni Keyte Walsh.