Danska ríkisútvarpið segir að 650.000 dönsk börn hafi tekið þátt í rannsókninni. Niðurstaða hennar er að engin tengsl eru á milli bólusetninga og einhverfu. Rannsakað var hvort bólusetningar við mislingum, rauðum hundum og hettusótt tengdust einhverfu.
Anders Hviid, hjá dönsku smitsjúkdómastofnuninni, sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að mýtan um tengsl einhverfu og bólusetninga hafi verið við lýði í rúmlega 20 ár. Það sé mikilvægt að koma með traust vísindaleg svör við þessari mýtu. Af þeim sökum réðst hann, ásamt fleirum, í gerð rannsóknar á 657.461 dönsku barni. Niðurstaðan er eins og fyrr greinir afdráttarlaus um að engin tengsl eru á milli bólusetninga og einhverfu. Einhverfa er jafnmikil hjá börnum sem voru bólusett við fyrrgreindum sjúkdómum og þeim sem ekki fengu bólusetningar.
„Niðurstaðan er vel rökstudd. Við sjáum ekkert samhengi.“
Sagði Hviid.
Danska smitsjúkdómastofnunin gerði álíka rannsókn 2002 á rúmlega hálfri milljón danskra barna og var niðurstaðan sú sama, bólusetningarnar juku ekki líkurnar á einhverfu. Þá var ekki rannsakað sérstaklega hvort tengsl gætu verið á milli bólusetninga og einhverfu hjá þeim sem eru í meiri hættu á að verða einhverfir. Þar er meðal annars átt við systkin einhverfra barna eða börn mæðra sem reyktu á meðgöngu. Þessir hópar eru í aðeins meiri hættu á að verða einhverfir en aðrir hópar.
Í nýju rannsókninni var þetta einnig rannsakað og niðurstaðan er sú sama, það eru engin tengsl.