Samkvæmt frétt The Times þá fullvissaði Chandler flugfélagið um að hann hefði staðist allar nauðsynlegar prófanir, árlegar úttektir og próf í flughermum. Flugfélagið tók orð hans trúanleg.
Það varð honum að falli að í nóvember þurfti flugstjóri, vélar sem Chandler var flugmaður á, að bregða sér á salernið þegar vélin var yfir Ölpunum. Á meðan Chandler var við stjórnvölinn tók hann „margar grunsamlegar beygjur“ og vaknaði þá grunur um að ekki væri allt með felldu. Meðal annars var spurt hvort það gæti virkilega verið að maðurinn kynni ekki að fljúga þrátt fyrir að hann starfaði sem flugmaður?
Málið var rannsakað og ótrúlegur sannleikurinn kom í ljós. William Chandler reyndist einfaldlega vera svikahrappur af bestu (eða verstu) gerð. Hann hafði falsað prófskírteini, ATPL, sem er hæsta menntunarstig atvinnuflugmanna.
En það er ekki nóg með að Chandler hafi misst vinnuna heldur hefur South African Airways nú kært hann fyrir svik og krefst greiðslu á þeim launum og öðru sem hann fékk hjá félaginu frá 1994 þar til á síðasta ári.