Talsmaður ríkissjónvarpsins segir að undankeppnin í ár hafi vakið athygli á kerfisbundnum vandamálum tónlistariðnaðarins í landinu þar sem margir listamenn hafi tengsl við árásargjarnt ríki, (þar er átt við Rússa, innskot blaðamanns) sem Úkraína hafi átt í stríði við í fimm ár.
„Þrátt fyrir að sumum finnist þessi tengsl ásættanleg eru þau móðgandi og óásættanleg fyrir aðra.“
Sagði talsmaðurinn.
Eins og lesa má úr orðum talsmannsins þá er það samband Úkraínu við Rússland sem er kjarni vandans.
Allt hófst þetta þegar úkraínska ríkissjónvarpið vildi ekki leyfa sigurvegara undankeppninnar, Maruv, að koma fram aftur því hún vildi ekki skrifa undir samning þar sem hún afsalar sér ákveðnum grundvallarréttindum. Þar á meðal að mega leika af fingrum fram á sviðinu, að tala við fréttamenn án samþykkis ríkissjónvarpsins og að halda tónleika í Rússlandi. Freedom Jazz og Kazka, sem lentu í öðru og þriðja sæti undankeppninnar, vildu heldur ekki skrifa undir slíkan samning og því var ákveðið að Úkraína verði ekki með að þessu sinni.