Þegar Elin Ildegran, sem býr í Solna í Svíþjóð, fór í útreiðartúr á hesti sínum, Hope, á sunnudaginn átti hún ekki von á öðru en að hér yrði um þægilegan útreiðartúr að ræða eins og yfirleitt. Útreiðartúrinn hófst við Hufvudsta reiðskólann og þaðan lá leiðin að knattspyrnuvelli í nágrenninu. Þar kom Elin auga á tvo menn sem stóðu með tvo hunda í bandi.
„Ég sá strax að þetta voru menn með tvo stóra, svarta bardagahunda. Þeir héldu í hundana en byrjuðu síðan að espa þá upp. Þeir sögðu hluti við hundana sem gerðu þá árásargjarna.“
Sagði Elin í samtali við Expressen.
„Ég reið rólega framhjá þeim á Hope en sneri fljótlega við og sá að þeir voru enn að espa hundana. Einmitt þá slepptu þeir þeim lausum. Þeir hlupu hratt að Hope og bitu í tagl hennar.“
Hún sagði að Hope hafi að vonum brugðið illa við þetta og hafi sprett af stað skelfingu lostin vegna hundanna. Síðan datt Elin af baki.
„Ég fór að gráta og var hrædd og það var Hope líka. Á meðan ég lá á jörðinni sá ég Hope hverfa á miklum hraða og hundarnir höfðu bitið sig fasta í tagl hennar.“
Lögreglunni var tilkynnt um málið og mætti á vettvang en þá voru hundaeigendurnir tveir farnir af vettvangi en þeir höfðu látið sig hverfa inn í nærliggjandi skóg. Lögreglumennirnir komu að Elinu liggjandi á jörðinni. Hún var í miklu áfalli og grét, auk þess fann hún til í höfðinu.
„Við ætlum að upplýsa þetta mál. Við erum nú að reyna að finna hundaeigendurna. Elin segir að mennirnir hafi gert þetta viljandi. Við vitum það auðvitað ekki með vissu en við vinnum út frá því.“
Sagði Towe Hägg, talskona lögreglunnar í Stokkhólmi.
Hope var bitin í taglið og fæturna. Henni tókst að komast aftur að reiðskólanum en þegar þangað kom blæddi mikið úr afturfótunum. Hún var strax flutt á dýraspítala en sauma þurfti djúp sárin á afturfótunum saman.
Elin sagðist finna mikið til með Hope og hún sé helsta áhyggjuefni hennar.
Á Facebooksíðu reiðskólans var myndband birt af afturfótum Hope ásamt umfjöllun um málið.