Það var Aftonbladet sem komst á snoðir um rannsóknina í síðustu viku. Blaðið skýrði þá frá því að yfirmaður í sjóhernum hefði verið handtekinn fyrir um ári síðan af öryggislögreglunni eftir að minnislykill með háleynilegum skjölum fannst í bakpoka hans. Í framhaldi af handtökunni var maðurinn rekinn úr hernum.
En nú hefur komið fram að handtaka yfirmannsins var aðeins lítill hluti af rannsókninni á fyrrgreindum samtökum. Aftonbladet segir að öryggislögreglan telji að tugir manna séu í samtökunum.
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, sagði í samtali við blaðið að honum sé kunnugt um málið en geti ekki tjáð sig um það þar sem rannsókn standi yfir.
Það eina sem saksóknarinn, sem stýrir rannsókninni, hefur látið hafa eftir sér er að „þetta snýst ekki um hryðjuverk“.
Engar aðrar upplýsingar er að fá um málið enn sem komið er því allt sem því tengist er flokkað sem ríkisleyndarmál þar sem málið tengist hernum og hernaðarleyndarmálum.