Konan, sem sagt er frá í þessari sögu, var gift manni sem var nískur, gráðugur og vildi sanka að sér peningum. Hann var raunar svo nískur og gráðugur að hann vildi taka peningana með sér í gröfina. Það er þó rétt að hafa í huga að hér er ekki um sanna sögu að ræða, svo vitað sé, en boðskapur hennar á eflaust erindi við marga.
Maðurinn vildi ekki skilja krónu eftir fyrir eiginkonuna þegar hann áttaði sig á að dagar hans hér á jörðinni væru senn taldir. Hann hafði unnið hörðum höndum allt sitt líf og sparað eins og hann gat. Óhætt er að segja að hann hafi elskað peninga meira en eiginkonu sína. Þegar leið að hinsta degi sagði hann við konu sína:
„Þegar ég dey vil ég að þú takir alla peningana mína og setjir þá í kistuna hjá mér. Ég vil taka peningana með mér.“
Hann fékk eiginkonuna til að lofa þessu hátt og hátíðlega. Fljótlega lést maðurinn.
Hann lá í sínu fínasta pússi í kistunni í útförinni. Ekkjan var svartklædd við hlið kistunnar og besti vinur þeirra hjóna við hlið hennar. Þegar presturinn hafði lokið sínum hluta átti að loka kistunni.
„Bíðið við.“
Sagði ekkjan og gekk að kistunni og lét skókassa ofan í hana. Síðan var henni lokað og kistunni ekið nærgætnislega á brott.
Besti vinurinn var fullur efasemda.
„Ég vona að þú hafi ekki verið svo vitlaust að setja alla peningana í kistuna hjá þessum gamla nískupúka.“
Sagði hann.
Ekkjan svaraði:
„Jú, ég lofaði honum því. Ég er sannkristin og má ekki ljúga. Ég lofaði að setja alla peningana í kistuna með honum.“
Vinurinn var vægast sagt undrandi á svipinn.
„Settirðu hverja krónu í kistuna?“
„Já, ég tók alla peningana, lagði þá inn á reikninginn minn og skrifaði ávísun sem ég setti í kistuna.“