Lögmaður Mansour kvartaði yfir brottvísuninni til Mannréttindadómstólsins og taldi að brotið hefði verið á honum með brottvísuninni. Hann taldi að brotið hefði verið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyntingum og benti á að stjórnvöld í Marokkó hefðu tvisvar farið fram á framsal hans vegna afbrota sem hann tengdist ekki. Auk þess taldi hann að hætta væri á að honum yrði refsað fyrir afbrot sem hann hefði þegar tekið út refsingu fyrir í Danmörku.
Í öðru lagi taldi hann að dómur Hæstaréttar frá 2016 stríddi gegn áttundu grein Mannréttindasáttmálans sem kveður á um rétt fólks til einka- og fjölskyldulífs.
Í þriðja lagi taldi hann að dómur stríddi gegn tíundu grein sáttmálans en hún kveður á um tjáningarfrelsi.
Dómurinn hafnaði öllum þessum röksemdum og voru allir dómararnir sammála um niðurstöðuna.
Mansour var handtekinn skömmu eftir komuna til Marokkó en hann er grunaður um aðild að hryðjuverki þar í landi. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi þar í landi.