Það var eitt sem faðir Irena Sendler kenndi henni í æsku og hún hafði að leiðarljósi allt sitt líf: Að hjálpa þeim sem minna mega sín. Það er óhætt að segja að hún hafi látið þetta vera leiðarljós sitt allt lífið og varð það mörgum til láns og lífs.
Irena fæddist í Varsjá í Póllandi 1910. Hún missti föður sinn þegar hún var aðeins sjö ára en árin sem hún átti með honum höfðu mikil áhrif á hana. Faðir hennar var læknir og fylgdi Irena í fótspor hans og hóf störf innan samfélagsgeirans.
Hún starfaði hjá velferðarsviði Varsjárborgar þar sem hún sá um aðstoð við fjölskyldur sem áttu ekki fyrir mat og fatnaði. Á þessum árum fór gyðingahatur vaxandi í Evrópu enda var uppgangur nasista mikill. Irena var sjálf heittrúaður kaþólikki en hún lét gyðingafordómana og hatrið ekki ná tökum á sér og aðstoðaði gyðinga til jafns við aðra.
Eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út og nasistar höfðu hernumið Pólland komu þeir á laggirnar gettói í Varsjá þar sem þeir söfnuðu gyðingum saman. Talið er að allt að hálf milljón gyðinga hafi verið látin dvelja í gettóinu. Lífið var allt annað en auðvelt þar því matarskortur, þrengsli, óöryggi og sjúkdómar settu mark sitt á hið daglega líf. Irena ákvað að láta þetta til sín taka og reyna að aðstoða gyðingana.
Hún gekk til liðs við Zegota, pólska andspyrnuhreyfingu, sem aðstoðaði gyðinga og reyndi að bjarga þeim frá útrýmingarbúðum nasista. Irena taldi ekki eftir sér að leggja sitt af mörkum, jafnvel þótt það gæti stefnt lífi hennar í hættu. Hún og fleiri meðlimir Zegota byrjuðu að flytja börn úr gettóinu. Þar biðu íbúarnir dauða síns, annað hvort þar eða í útrýmingarbúðum.
Irena heimsótti mörg heimili í gettóinu og bauðst til að smygla börnum þaðan út í öryggið. En þótt göfug markmið væru höfð að leiðarljósi áttu margar mæður erfitt með að láta börn sín af hendi til ókunnugrar konu.
En það var ekki auðvelt að smygla börnunum út úr gettóinu því nasistarnir gættu þess vel og mikið eftirlit var með öllum ferðum til og frá því. Irena varð því að sýna mikla hugmyndaauðgi við að smygla börnunum út. Í fyrstu notaði hún sjúkrabíla og þóttist vera að sækja mjög veikt fólk sem þurfti að flytja á sjúkrahús. En eftir því sem eftirlitið var hert þurfti að finna nýja leiðir til að koma börnunum út. Hún faldi þau því í pokum, ruslapokum og líkkistum. Á þennan hátt tókst að bjarga 2.500 börnum frá dauða.
Irena hélt skrá yfir öll börnin sem tókst að bjarga. Þessa skrá geymdi hún í niðursuðudósum sem hún gróf niður í garði nágranna síns.
Allt gekk vel þar til dag einn þegar nasistarnir uppgötvuðu hvað hún var að gera og handtóku hana. Hún var flutt í fangelsi og liðsmenn Gestapo yfirheyrðu hana. Þeir brutu báða handleggi hennar í yfirheyrslunum. En þrátt fyrir ofbeldið og pyntingarnar sagði hún ekki orð um börnin eða fjölskyldur þeirra. Á endanum gafst Gestapo upp og Irena var dæmd til dauða. En örlögin höfðu ekki í hyggju að láta hana deyja strax.
Samverkafólk hennar gafst ekki upp og náði að múta hermönnum í fangelsinu til að hjálpa henni að flýja. Flóttinn tókst og Irena fór huldu höfði næstu árin en hætti aldrei að aðstoða aðra.
„Hatrið í garð þýska hernámsliðsins var sterkara en óttinn. Auk þess kenndi faðir minn mér að maður eigi að aðstoða þann sem er að drukkna. Þarna var Pólland að drukkna.“
Sagði hún síðar í samtali við Sydsvenskan.
Að stríði loknu gróf hún skrá sína yfir börnin upp og afhenti yfirvöldum sem gátu notað hana til að sameina fjölskyldur á nýjan leik.
Irena giftist síðar og eignaðist þrjú börn og lifði hamingjusömu lífi.
„Ástæðuna fyrir að ég bjargaði börnunum er að finna í æsku minni, uppeldi mínu. Ég var alin upp við að hjálpa öðrum, það skiptir engu hver trúin eða þjóðernið er.“
Sagði hún.
Irena var sæmd heiðursmerki Ísraels fyrir það sem hún gerði fyrir gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni og hún var tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels 1997.
Hún lést 2008.