The Guardian segir að mótmæli hafi til dæmis verið boðuð þann 23. mars. Theresa May, forsætisráðherra, hefur sagt að Bretar muni yfirgefa ESB á umsömdum tíma þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst um útgönguna en breska þingið felldi samning hennar við ESB þar um.
Skipuleggjendur mótmælanna, sem hafa fengið nafnið Put It to the People, eru þverpólitískur hópur sem hafa áhyggjur af þeirri pólitík sem hefur verið rekin í tengslum við Brexit og vilja skipuleggendurnir forðast öngþveiti og ringulreið í tengslum við Brexit. Þingmenn úr öllum flokkum eru sagðir vera í hópnum.
Eitt af markmiðunum með mótmælunum er að þrýsta á um að samið verði við ESB um útgönguna og að breskur almenningur fái að greiða atkvæði um útgöngusamninginn.
Vaxandi þrýstingur er á May um að fresta Brexit enda óttast margir afleiðingarnar ef útgangan verður án samnings. Hún hefur þó hafnað þessu fram að þessu.