Áður hafa óvenjuleg veðurfyrirbrigði uppgötvast í efri lögum gufuhvolfsins en vísindamennirnir, sem starfrækja Lomonosov gervihnöttinn, segja að þessi uppgötvun geti verið eitthvað alveg nýtt. Um var að ræða orkumikla atburði (sprengingar) en engin merki voru um óveður á svæðinu.
Mikhail Panasyuk, yfirmaður kjarnorkurannsóknardeildar Moskvuháskóla, sagði í samtali við Sputnik að hér virðist sem nýtt náttúrufyrirbæri hafi verið uppgötvað en enn sé ekki vitað hvað var hér á ferð. Hann sagði að gervihnötturinn hafi nokkrum sinnum skráð öflugar „ljóssprengingar“ en samtímis hafi himininn verið heiður.
Gervihnettir hafa á undanförnum árum myndað óvenjulegar rafhleðslur í gufuhvolfinu og það hafa geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni einnig gert. En þessar rafhleðslur hafa alltaf birst í tengslum við óveður og því er þessi nýja uppgötvun mjög sérstök.
Rússneskir vísindamenn reyna nú að komast að því hvaða fyrirbæri var hér á ferð.