fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Pressan

Af hverju heimsóttu háttsettir menn fylgdarstúlkuna í fangelsið? Hvað vissi hún?

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 11. febrúar 2019 22:00

Nastya Rybka

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nastya Rybka komst í heimsfréttirnar þegar hún skýrði frá því að rússneskur auðmaður, nátengdur Vladimír Pútín Rússlandsforseta, hefði tekið þátt í íhlutun Rússa í bandarísku forsetakosningarnar 2016 í þeim tilgangi að aðstoða Donald Trump. Rybka er fylgdarstúlka, það er að segja karlar greiða henni fyrir félagsskap og jafnvel eitthvað meira.

Ekki var annað að sjá en Rybka gæti orðið aðalvitnið í rannsóknum bandarískra yfirvalda á meintri íhlutun Rússa í forsetakosningarnar. Ummæli hennar voru svo áhugaverð og eldfim að bandarískir alríkislögreglumenn voru sendir til Taílands til að yfirheyra hana þar sem hún sat í fangelsi. Hún endaði í fangelsi þar eftir að hafa skipulagt ólögleg kynlífsnámskeið á hóteli í landinu.

En það þarf að horfa aðeins lengra aftur í tímann til að skilja söguna um Rybka alveg. Hún heitir í raun Anastasia Vasjukevich. Í ágúst 2016 tókst henni að landa starfi á lúxussnekkju rússneska milljarðamæringsins Oleg Deripaskas undan ströndum Noregs. Um borð í snekkjunni var einnig Sergej Prikhodko, varaforsætisráðherra Rússlands.

„Ég varð ástfangin af Deripaskas. Hann er fallegur maður og með falleg augu. Af hverju ekki?“

Sagði Rybka í viðtali við BBC.

Þeim samdi svo vel að þau hittust að minnsta kosti tvisvar til viðbótar eftir því sem rússneski netmiðillinn The Bell segir. Um haustið var henni flogið með einkaflugvél Deripaskas til sveitaseturs hans í suðurhluta landsins. Í janúar 2017 hittust þau á skíðastað í Austurríki.

Mikilvægur maður

Rybka segir að maður, sem leit út fyrir að vera mikilvægur, hafi komið í fjórhjóladrifnum jeppa með lituðum rúðum á skíðastaðinn til fundar við Deripaska. Þeir áttu leynilegt samtal en Rybka hafði komið upptökutæki fyrir bak við bækur í bókasafninu þar sem þeir ræddu saman. Ekki er vitað hver maðurinn er eða hvort Rybka eigi upptökuna enn.

En það var dvölin um borð í lúxussnekkjunni sem Rybka reyndi að nota sér til ávinnings. Ásamt þjálfara sínum, Alexander Kirillov, sem kenndi henni ýmislegt varðandi kynlíf og listina að tæla menn, reyndi hún næstu 18 mánuðina að verða sér úti um peninga með því að segja frá því sem hún hafði upplifað og sambandi sínu við Deripaska.

Oleg Deripaskas

Rybka og Kirillov stilltu sér upp á Rauða Torginu með auglýsingaskilti um tvær litlar bækur Rybka þar sem hún sagði frá sambandi sínu við Deripaska. En þetta bar lítinn árangur, aðeins nokkur smá viðtöl í rússneskum slúðurblöðum sem vöktu enga athygli.

Kynlífshótelið í Taílandi

En það var einn maður sem tók eftir þessu öllu saman. Það var Alexej Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar. Í febrúar á síðasta ári notaði hann bækur og ljósmyndir Rybka til að sýna fram á að Deripaskas hefði mútað varaforsætisráðherranum með lúxusferð.

Þá vildi svo ótrúlega til tveimur vikum síðar, þann 25. febrúar, að taílenska lögreglan réðst til inngöngu í Ibis hótelið í Pattaya en það hefur verið nefnt „stærsta vændishús heims“. Þar voru Rybka og Kirillov og átta til viðbótar handteknir. Tveimur dögum síðar voru þau flutt í hið alræmda Nong Pla Lai fangelsi og ákærð fyrir að hafa selt kynlífsþjónustu án þess að hafa atvinnuleyfi.

Rybka.

Það virðist sem það hafi ýtt við Rybka að nú blasti ekkert annað en hörmungarvist við í yfirsetnu fangelsinu að hún sendi út neyðarkall til heimsins um að hún hefði undir höndum 16 tíma upptökur, mynd- og hljóðupptökur, með vægast sagt eldfimu pólitísku innihaldi. Hún sagði upptökurnar sanna að tengsl væru á milli Deripaska, rússneskra stjórnmálaleiðtoga, Trump og fyrrverandi kosningastjóra hans, Paul Manafort.

Hún sagði upptökurnar til sölu í skiptum fyrir hæli og öryggi í Bandaríkjunum því hún sagðist þess fullviss að Deripaska og rússnesk stjórnvöld stæðu á bak við handtökuna í Taílandi.

Varð hrædd við Bandaríkjamennina

The Bell hefur eftir mörgum vinum Rybka og Kirillov að vikurnar og mánuðina eftir handtökuna hafi margir útsendarar frá ýmsum leyniþjónustum lagt leið sína í fangelsið til að ræða við þau. Þar á meðal frá CIA og rússnesku leyniþjónustunni FSB. Lögreglumenn frá alríkislögreglunni FBI fóru einnig til Taílands en fengu að sögn ekki heimild til að ræða við þau skötuhjúin.

Þá var Vladimir Pronin, ræðismaður Rússlands í Taílandi, einnig tíður gestur í fangelsinu. Það lítur einnig út fyrir að það hafi verið hann sem fékk skötuhjúin látin laus eftir níu mánuði. Þá héldu þau til Moskvu.

Rybka segist ekki hafa látið bandarísku útsendarana fá neitt. Án þess að gefa neinar frekari skýringar sagði hún svo að með tímanum hafi hún sannfærst um að það hafi verið Bandaríkin sem létu handtaka hana í Taílandi.

Rybka og Kirillov.

Í samtali við BBC sagði hún að hún hafi óttast um líf sitt og að lokum hafi hún látið Deripaska fá þau gögn sem hún hafði. Hún sé ekki með meira í fórum sínum. Hún yfirgaf fangelsið í Taílandi án síma og tölvu. Hún sagði BBC að líklega hafi hún valdið Deripaska miklum höfuðverk en Bandaríkin beittu hann refsiaðgerðum fyrir að hafa skipt sér af forsetakosningunum. Deripaska hefur nú höfðað mál á hendur Rybka og kynlífsþjálfara hennar fyrir að brjóta gegn friðhelgi einkalífsins.

Rybka og þjálfari hennar voru handtekin við komuna til Moskvu og ákærð fyrir vændi. Þau voru látin laus eftir nokkra sagði hún í samtali við BBC og höfðu þá fengið nákvæm fyrirmæli um hvað þau mættu segja og ekki segja um málið. Það skýrir þá hugsanlega af hverju Rybka segist ekki lengur vita af hverju hún taldi að tengsl hafi verið á milli Trump og Rússlands fyrir forsetakosningarnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 5 dögum

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans