Velta fyrirtækisins á fjórða fjórðungi síðasta árs var 1,52 milljarðar dollara en spáð hafði verið að hún yrði 1,44 milljarðar. Þetta þýðir að það var 20 milljón dollara hagnaður af rekstrinum en spáð hafði verið 53 milljón dollara tapi. Fjárfestar tóku þessum tíðindum vel og hækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um 13,9 prósent í kjölfarið.
Uppgjörið bendir til að Mattel sé á leið út úr krísunni sem gjaldþrot leikfangaverslunarkeðjunnar Toys“R“US hratt af stað 2018. Fyrirtækið spáir því að áhrifanna verði hætt að gæta á síðari helmingi þessa árs.
Þessi góða rekstrarniðurstaða náðist með miklum sparnaði en hann nam 521 milljón dollara á síðasta ári. Á þessu ári er reiknað með að sparnaðurinn skili sér í bættri afkomu upp á 650 milljónir dollara.
Þá hefur sala á Barbídúkkum aukist en söluaukningin var 12 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018 og var salan 1,1 milljarður dollara.