Því var haldið fram að hér væri um loftstein að ræða, aðrir töldu þetta vera halastjörnu og enn aðrir töldu að hér væri geimfar vitsmunavera á ferð. Það er því spurning hvort dr. Zdenek Sekanina, hjá NASA Jet Propulsion Laboratory, hafi rétt fyrir sér í nýrri rannsókn. Hann telur að Oumuamua sé leifar halastjörnu sem hafi sundrast áður en hún fór næst sólinni. Eftir hafi orðið vindlingalaga steinklumpur.
Sekanina hefur sérhæft sig í rannsóknum á loftsteinum, halastjörnum og geimryki á þeim 40 árum sem hann hefur starfað hjá NASA og hefur hann komið að nokkrum mikilvægustu rannsóknum sögunnar á þessum sviðum.