Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá University College London. Í kjölfar komu Evrópumanna til Ameríku brutust út stríð með tilheyrandi manntjóni en ekki má gleyma að Evrópumenn báru áður óþekkta sjúkdóma með sér til Ameríku. Allt varð þetta þess valdandi að 56 milljónir innfæddra létust næstu 100 árin.
Þetta hafði í för með sér að gríðarlega stór svæði, sem höfðu verið tekin undir landbúnað, stóðu skyndilega ónotuð og fljótlega breiddu tré og runnar úr sér á þeim. Landsvæði á stærð við Frakkland breyttist úr landbúnaðarsvæði í skóglendi. Þetta hafði þau áhrif að magn CO2, sem losnaði út í andrúmsloftið, minnkaði svo mikið að það hafði áhrif á meðalhitann á jörðinni. Hitinn lækkaði og olli því sem vísindamenn hafa lengi kallað „litla ísöld“ sem hófst 1610.
Fram að þessu hafa vísindamenn talið að þessi litla ísöld hafi verið verk náttúrunnar en þessi nýja rannsókn leiðir í ljós að hún var bein afleiðing fólksfækkunar í Ameríku í kjölfar komu Evrópubúa.
Niðurstöðurnar byggja á fornleifafundum, sögulegum gögnum og ekki síst rannsóknum á ísnum á Suðurskautinu en í honum eru leifar loftegunda og því er hægt að komast að hvert magn þeirra var í andrúmsloftinu á hverjum tíma.