Lið New England Patriots sigraði í keppninni um Ofurskálina, Super Bowl, í nótt en liðið mætti Los Angeles Rams í hinum árlega leik um þennan eftirsótta titil. Þetta var í sjötta sinn sem Patriots vinna Ofurskálina og jöfnuðu þar með met Pittsburgh Steelers sem hafa einnig unnið Ofurskálina sex sinnum. Aldrei hafa færri stig verið skoruð í Ofurskálinni eða aðeins 16 en Patriots sigruðu 13-3. Það gefur því auga leið að varnarleikurinn var í hávegum hafður.
Hin goðsagnakenndi leikstjórnandi Tom Brady leiddi lið sitt til sigurs en hann er eini leikmaðurinn í sögu NFL sem hefur unnið Ofurskálina sex sinnum.
Eftir fyrsta leikfjórðung var staðan 0-0. Brady og aðalþjálfari Patriots, Bill Belichick, hafa níu sinnum keppt saman um Ofurskálina og í þessum leikjum hafa lið þeirra aðeins skorað þrjú stig samtals í fyrsta leikfjórðungi. En samt sem áður höfðu þeir sigrað fimm sinnum áður en leikur næturinnar hófst.