82 ára karlmaður fannst látinn við heimili sitt i Illinois, hann króknaði úr kulda. Annar maður lést í ríkinu þegar hann varð fyrir snjóplógi við enda innkeyrslu. Í Wisconsin fannst maður frosinn til bana í bílskúr nærri heimili sínu, hann hafði verið að moka snjó. Í Indiana lést maður í innkeyrslunni heima hjá sér, talið er að hann hafi dottið og ekki getað reist sig upp. Önnur dauðsföll má rekja til umferðarslysa.
Sterkur vindur og gríðarlegt frost liggur nú yfir stærstum hluta austurhluta Bandaríkjanna. Frostið fór niður í 30 stig í Chicago í gær og niður í 37 stig í Norður-Dakóta. Til samanburðar má nefna að á Norðurpólnum var frostið í gær 42 stig.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir nokkrum ríkjum, þar á meðal Wisconsin, Michigan og Illinois. Bandaríska veðurþjónustan segir að í þessum mikla kulda og með vindkælingunni geti fólk orðið fyrir alvarlegu líkamstjóni, kali, á nokkrum mínútum
Í tíu ríkjum hefur póstburði verið hætt á meðan þetta ástand varir og í Chicago hefur mörg þúsund flug- og lestarferðum verið aflýst. Þá hefur orðið að hætta dreifingu á bjór til verslana og veitingahúsa í nokkrum ríkjum því kuldinn er svo mikill að bjórinn frýs í flutningabílunum.