Elísabet gekk til dæmis ekki í skóla. Í dag fara afkomendur Elísabetar í skóla en auðvitað einkaskóla, almenningsskólar þykja kannski ekki alveg nógu fínir fyrir fólk af konungsættum. En Elísabet gekk sjálf ekki í skóla. Hún og systir hennar, Margrét prinsessa, fengu kennslu heima við og dugði ekkert minna en bestu kennarar sem hægt var að fá. Þær lærðu mikið um stjórnarfar og sögu þess sem og lög enda var verið að undirbúa þær undir hlutverk þeirra innan konungsfjölskyldunnar. Systurnar nutu góðrar menntunar en þær upplifðu aldrei að sitja í skólastofu með öðrum börnum og læra og hvað þá eignast vini fyrir lífstíð.
Elísabet hefur aldrei tekið bílpróf en hún lærði að aka í síðari heimsstyrjöldinni en tók aldrei próf. Hún ekur nú samt sem áður reglulega. Ástæðan fyrir þessu er að ökuskírteini, eins og vegabréf, eru gefin út í nafni drottningarinnar og það þýðir að hún þarf ekki slíkt skírteini, hún er jú drottningin.
Elísabet hefur heldur aldrei kosið í kosningum. Henni er það heimilt en það er ekki talið samræmast góðu stjórnarfari að drottningin kjósi þar sem hún þarf að vera hlutlaus hvað varðar öll pólitísk málefni. Eflaust hefur hún sínar skoðanir á því sem gerist í stjórnmálum en hún lætur ekkert uppi um það og heldur algjöru hlutleysi í öllu er varðar stjórnmál.
Elísabet hefur aldrei unnið hefðbundna 9-5 vinnu en það þýðir samt ekki að hún sitji auðum höndum. Dagskrá hennar er þéttskipuð enda margar skyldur sem hún þarf að sinna.
Elísabet hefur aldrei verið með aðgang að samfélagsmiðlum. Hún metur einkalíf sitt og fjölskyldu sinnar mikils og því hefur hún, eins og margir aðrir úr konungsfjölskyldunni, aldrei verið með aðgang að samfélagsmiðlum. Talið er að sumir yngri meðlimir konungsfjölskyldunnar noti samfélagsmiðla til að vera í sambandi sín á milli en það verður að teljast mjög ólíklegt, eiginlega bara útilokað að Elísabet sé með þannig leynireikning. Hún hefur þó einu sinni tíst á Twitter en það gerði hún í tengslum við heimsókn sína í Vísindasafnið í Lundúnum í október 2014.