Í nokkrum ríkjum hefur neyðarástandi verið lýst yfir vegna kuldanna, þar á meðal í Wisconsin, Michigan og Illinois, þar sem Chicago er. Fólk á á hættu að verða fyrir ofkælingu og kali á nokkrum mínútum enda er frostið víða mikið og þegar vindkælingin hefur verið tekin með í reikninginn getur það jafnast á við 50 stiga frost. Ef vindkælingin gerir kuldann meiri en 45 gráður getur óvarin húð frosið á fimm mínútum. CNN segir að bandaríska póstþjónustan hafi ákveðið að hætta öllum póstburði í sex ríkjum og í fjórum öðrum verður póstþjónusta mjög skert á meðan á þessu mikla kuldakasti stendur.
En það er ekki nóg með að það sé nístingskuldi sem herjar á fólk heldur bætist snjór við hremmingarnar. Í Wisconsin er til dæmis spáð mikilli snjókomu og að þar falli allt að 60 sm af snjó.