Kickl er í Frelsisflokknum sem er vægast sagt efins um ágæti þess að útlendingar setjist að í Austurríki og þar af leiðandi ekki sérstaklega jákvæður í garð flóttamanna. Hann vill að hægt verði að vísa hælisleitendum, sem hafa gerst sekir um afbrot, úr landi eftir að undirréttur hefur kveðið upp dóm og þannig svipta þá möguleikanum á að áfrýja málum sínum.
„Í grunninn þarf það að vera þannig að dómstólar fylgi vilja stjórnmálamanna en ekki að stjórnmálamenn þurfi að fara að vilja dómstóla.“
Sagði hann í umdeildu viðtali í austurrísku sjónvarpi á þriðjudaginn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kickl vekur deilur með ummælum sínum og skoðunum. Hugmyndir hans um að svipta hælisleitendurna möguleikanum á áfrýjun stríða gegn Mannréttindasáttmálanum.
Á miðvikudaginn reyndi Kickl að milda ummæli sín þegar hann ræddi við dagblaðið Krone Zeitung. Þar sagði hann að hann „vilji gjarnan skapa umræður um þessar reglur“ sem hann segir vera of fjarri almenningi.
„Stærsta vandamál réttarríkisins er ef það skilur ekki borgarana lengur.“
Mannréttindasáttmálin er frá 1950 en Austurríki skrifaði undir hann á sjöunda áratugnum. Sebastian Kurz, kanslari, sagði í gær að Austurríki muni áfram virða Mannréttindasáttmálann og að hann hafi sagt innanríkisráðherranum sína skoðun á þessu í símtali.