Í samtali við Bloomberg sagði hann að í tengslum við að nú muni fara að draga úr hagvexti muni pólitískar hugmyndir blómstra sem og umræða um hvernig hægt verður að hafa áhrif á efnahagsstefnuna. Til dæmis muni umræða um 70% hátekjuskatt fá meira vægi.
Þessi ummæli hans féllu í kjölfar hugmynda Alexandria Ocasio-Cortez, hinnar ungu þingkonu demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en hún lagði fyrr í mánuðinum til að 70% skattur verður lagður á þá hæst launuðu. Hún þykir snjöll í notkun samfélagsmiðla og nær til fjölda fólks í gegnum þá. Hún er með fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlum en Nancy Pelocy sem er leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni og um leið valdamesti demókratinn í dag.
Bridgewater Associates er stærsti vogunarsjóður heims og er þekktur fyrir „öfgafullt gegnsæi“. Til dæmis eru allir fundir innan fyrirtækisins teknir upp á myndbönd sem eru síðan aðgengileg fyrir alla starfsmenn.
Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, hefur einnig látið hafa eftir sér að þeir efnamestu þurfi að greiða hærri skatta.